136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[16:54]
Horfa

dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Bjarnasyni fyrir spurningarnar. Hvað varðar hinn sérstaka saksóknara og væntingar til hans verður að hafa í huga að hinn sérstaki saksóknari hóf störf 1. febrúar sl. þegar nokkur tími var liðinn frá bankahruninu. Hann hóf störf sín í rauninni í því andrúmslofti að menn voru mjög óþolinmóðir að sjá strax árangur af störfum hans. Auðvitað þarf hinn sérstaki saksóknari að fá færi til að kynna sér málin og fara ofan í þau og hefja rannsókn. Það hefur ekki verið um það deilt að einhvers staðar verði menn að byrja og þetta embætti byrjaði eins og áætlað var með þremur til fjórum starfsmönnum.

Síðan varð ljóst þegar embættið hóf störf að það þurfti ríkari heimildir til þess að geta sinnt starfinu og það frumvarp sem nú er til umræðu gerir einmitt ráð fyrir þeim heimildum. Þá samþykkti ríkisstjórnin 10. mars sl. að óska eftir aðstoð Evu Joly sem ráðgjafa vegna rannsóknar á brotum í tengslum við bankahrunið og í kjölfar þess er gert ráð fyrir að rannsóknin verði mun alþjóðlegri og að aðkeypt sérfræðiþjónusta verði stóraukin.

Hinn sérstaki saksóknari hefur komið á minn fund og kynnt endurskoðaða rekstraráætlun og kynnt mannaflaþörf embættisins. Ég taldi því ekki annað í stöðunni en að kynna ríkisstjórninni það í morgun. Sú áætlun sem unnin er í samvinnu við hinn sérstaka saksóknara með aðkomu Evu Joly var kynnt fyrir ríkisstjórn og þar er gert ráð fyrir 16 föstum starfsmönnum auk þess sem þrír til fjórir erlendir sérfræðingar ynnu með embættinu. Þetta yrðu allt að 20 manns.

Eins og ég greindi frá á blaðamannafundinum í dag var mér falið af ríkisstjórn að vinna að málinu nánar ásamt forsætisráðherra og fjármálaráðherra með það fyrir augum að koma með niðurstöðu á föstudag. Ég vonast að sjálfsögðu eftir jákvæðum undirtektum en ég taldi nauðsynlegt að gera grein fyrir þessum fyrirætlunum.

Endurskoðuð rekstraráætlun — svo ég fari nákvæmar ofan í það sem er þar uppi á borðinu og enn liggur fyrir í drögum, en útgangspunkturinn hjá mér er að 16 fastir starfsmenn verði við embættið. Auk saksóknarans verða fimm lögfræðingar, tveir löggiltir endurskoðendur, sex lögreglumenn auk tveggja skrifstofumanna. Um hina erlendu sérfræðinga þarf að ræða nánar og aðkomu þeirra og á hvaða tímapunkti og verður haft samráð við Evu Joly um það. Hún er ráðgjafi ríkisstjórnarinnar um rannsókn þessara brota og hún hefur víðtæk tengsl í alþjóðlegt samfélag þeirra sem rannsaka efnahagsbrot og hefur þar mikið til málanna að leggja. Það er hennar aðkoma á þessum tímapunkti. Hún mun koma hingað til landsins á morgun og þá verður þetta rætt frekar með aðkomu erlendra sérfræðinga og ég vonast til þess að hægt verði að ganga frá þessu fyrir vikulokin. Ég tel það mjög brýnt að saksóknarinn þurfi einmitt ekki að svara spurningum um þessi atriði, þ.e. að það sé bara á hreinu, hann geti sinnt störfum sínum og gert það af myndugleika og krafti og hann er þegar byrjaður á því. Samkvæmt mínum upplýsingum er nóg að gera hjá hinum sérstaka saksóknara, allir starfsmenn þar sinna störfum sínum af fullum krafti og ekki vanþörf á að auka starfsmannafjöldann mjög bráðlega og helst ekki síðar en í næstu eða þarnæstu viku.