136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

raforkulög.

398. mál
[23:14]
Horfa

Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp um að fresta lagaákvörðunum varðandi aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta til 1. janúar 2010. Þessi frestun snertir aðallega Orkuveitu Reykjavíkur en hitt fyrirtækið, Hitaveita Suðurnesja, sem er langt komið í að skipta upp fyrirtækinu Hitaveitu Suðurnesja í HS Orku hf. og í HS Veitur hf., er nú á lokasprettinum í að skipta fyrirtækinu upp. Staðan hjá fyrirtækinu er því sú að verið er að ljúka samningum við lánastofnanir og það er það síðasta sem fyrirtækið þarf að gera til að skipta fyrirtækinu endanlega upp. Þá er aðeins eitt sem stendur út af, þ.e. að einn forstjóri er yfir báðum fyrirtækjunum, þ.e. HS Orku hf. og HS Veitum hf. Það getur þó eflaust frestast til 1. janúar 2010 að klára þær breytingar. Eflaust hefði Hitaveita Suðurnesja kosið að óskir um breytingar hefðu komið fyrr fram þannig að Hitaveita Suðurnesja hefði getað hægt á þessu ferli, uppskiptingarferli sem hefur kostað fyrirtækið töluvert fjármagn en fram kom á fundi í iðnaðarnefnd að beinn útlagður kostnaður vegna uppskiptingar Hitaveitu Suðurnesja í þessi tvö fyrirtæki er um 40 milljónir.

Þetta snertir að mestu leyti Orkuveitu Reykjavíkur en við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í iðnaðarnefnd styðjum málið og munum samþykkja þessa breytingu.