136. löggjafarþing — 112. fundur,  25. mars 2009.

fundarstjórn.

[00:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég hlýt náttúrlega að andmæla því algerlega að þetta sé eitthvert málþóf. Ég mótmæli því að þær ræður sem ég hef haldið í kvöld séu annað en efnislegar. Ég hef rætt um niðurgreiðslu raforku til húshitunar og það er mér sérstakt mál. Ég er á móti slíkum sovétaðferðum.

En ég hef bent á að á dagskránni í dag eru 26 mál, flest afskaplega þunn og varða ekkert hag fjölskyldna, (Gripið fram í.) fyrirtækja eða atvinnunnar eða eru til þess að bjarga málum. Það vantar mál frá ríkisstjórninni. Það er allt í lagi að vaka yfir slíkum málum sem skipta máli.

Það eru tvö mál eftir sem mér finnst skipta máli og sem ég ætla að ræða um en ekki sem málþóf, t.d. mál eins og ábyrgðarmennirnir sem ég hef barist lengi fyrir og er mitt hjartans mál. Mér finnst það mál skipta máli. En hérna er fjöldinn allur af málum, t.d. samkomulag milli Íslands og Grænlands um að skipta á útsendum fulltrúum, hvaða máli skiptir það um miðja nótt?