136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

innsöfnun, endurnýting og endurvinnsla.

367. mál
[15:04]
Horfa

umhverfisráðherra (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég er ekki með gögnin hjá mér en ef ég man rétt eru tvö erindi hjá ráðuneytinu frá aðilum sem gjarnan vilja sjá þessum hjólbarðamálum fyrir komið með öðrum hætti en nú er. Þau bæði útheimta talsverð fjárútlát, meira að segja meiri en svo að ráðstöfunarfé ráðherra til loka árs nægi fyrir framlögum í þær hugmyndir. Þannig er ástandið, ráðstöfunarfé ráðherra í umhverfisráðuneytinu er sáralítið, það var skorið niður í fjárlögum þessa árs og það er búið að taka af því ákveðnar upphæðir, ég held að ég fari með rétt mál þegar ég segi að u.þ.b. 3 millj. séu eftir til loka ársins. (Gripið fram í.)

Umhverfisráðherra kemur til með að reyna að skilja eitthvað eftir. Nú líður að kosningum og ég ætla ekki að eyða þessum 3 millj. áður en að kosningum kemur. Ég hef því ekkert svigrúm til að setja fjármuni í þær hugmyndir sem hafa verið sendar inn til ráðherra í þessum efnum. Hins vegar er ég öll af vilja gerð til að reyna að sjá út einhverja möguleika á því að nýta hjólbarðana með öðrum hætti en með því að kurla þá og nota þá í drenlögn.

Hins vegar eru upplýsingar mínar frá markaðnum í raun og veru þær að þær tilraunir sem hafa verið gerðar með endurnýtingu hjólbarða hafi t.d. reynst of dýrar og þá er ég t.d. að tala um að steypa hellur úr hjólbörðum sem mér hefur alltaf fundist ákjósanleg aðferð. Það hefur reynst mjög dýrt og erfitt að koma því í verð eða verðleggja það svo viðunandi sé. Síðan hefur Sementsverksmiðjan oft verið nefnd sem mögulegur notandi hjólbarðanna. Búnaður sem hefur verið viðunandi í þeim efnum hefur ekki verið settur upp í Sementsverksmiðjunni og það hefur verið ákveðin tregða í því að brenna hjólbarða beinlínis til að framleiða orku í Sementsverksmiðjunni. Allir þessir hlutir eru engu að síður enn þá til skoðunar í ráðuneytinu og ég fullvissa hv. þingmann um að ég mun leita leiða til að nýta hjólbarðana með öðrum hætti.