136. löggjafarþing — 114. fundur,  25. mars 2009.

aðför, nauðungarsala og gjaldþrotaskipti.

322. mál
[15:35]
Horfa

Frsm. allshn. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðför, lögum um nauðungarsölu og lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., eða réttarfarsbandorminum en undir því nafni hann hefur gengið í meðförum allsherjarnefndar.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar með það að markmiði að bæta stöðu skuldara við gjaldþrotaskipti og frestun á nauðungarsölu svo skuldari fái tækifæri til að endurskipuleggja fjármál sín. Lagt er til að aðfararfrestur verði lengdur, nauðungarsölu frestað og að kveðið verði skýrar á um almenna leiðbeiningarskyldu dómara varðandi þau úrræði sem skuldurum standa til boða.

Í kjölfar þess að málið var tekið út úr nefnd í morgun var samstaða um að leita eftir því og reyna að haga málum svo að unnt væri að gera þetta frumvarp að lögum í dag í ljósi þess að þetta úrræði skiptir marga miklu máli. Það má ekki tefjast að óþörfu hér að breytingin taki gildi, sérstaklega að því er varðar frestun á nauðungarsölu. Ég mun hlaupa hér á helstu atriðum í nefndarálitinu.

Lagt er til að almennur aðfararfrestur verður lengdur úr 15 dögum í 40 daga. Í nefndaráliti er jafnframt gert ráð fyrir að ekki verði hér eftir um sérstök ákvæði að ræða um fyrningarfrest krafna við gjaldþrot. Ástæða þess er annað úrræði sem er til meðferðar á lokastigum í þinginu sem er frumvarp til laga um greiðsluaðlögun. Í því úrræði felst að hin almenna regla geti orðið að skuldarar sem vilja taka ábyrgð á skuldbindingum sínum geti í gegnum greiðsluaðlögun lokið kröfum á hendur sér með greiðslu þess sem þeir geta mögulega innt af hendi í samræmi við greiðslugetu. Það er því ekki eðlilegt í ljósi þess úrræðis að hafa sérstakan fyrningarfrest krafna við gjaldþrot því að slíkt gæti einfaldlega verið til þess að umbuna þeim þrotamönnum sem ekki vilja axla ábyrgð á eigin skuldbindingum.

Eitt mikilvægasta ákvæði bandormsins er síðan það sem ég rakti hér í upphafi, um frestun á byrjun uppboðs eða nauðungarsölu eigna. Nefndin leggur til breytingartillögu sem miðar að því að sú frestun gildi lengur en ráð var fyrir gert í upphaflegu frumvarpi. Í upphaflega frumvarpinu var miðað við 31. ágúst en þar sem Alþingi situr ekki þegar sá frestur rennur út var talið rétt að þessi frestun gilti til 31. október í ár.

Jafnframt er í breytingartillögum nefndarinnar að finna sérreglu um vaxtareikning skulda hins opinbera. Ástæða þess er sú að þegar til frestunar nauðungarsölu kemur, segir í upphaflegu frumvarpi að kröfur skuli bera þá vexti sem þær ella hefðu borið. Opinberar kröfur bera hins vegar enga vexti nema dráttarvexti þegar komið er að vanskilum. Það er því að höfðu samráði við tollstjóra og fjármálaráðuneytið orðin sú niðurstaða að nefndin flytji breytingartillögu sem kveði á um sérstaka opinbera vanskilavexti sem verði nokkru lægri en dráttarvextir og í hinum opinberu vanskilavöxtum felist ákveðið fyrirheit af hálfu hins opinbera um vaxtalækkun og að þeir verði 15%. Þá vaxtaákvörðun megi þá líka skilja sem væntingu hins opinbera um að vaxtastig fari lækkandi eftir því sem líður á árið.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar í ljósi eðlis málsins og þess að miklu skiptir að koma málinu hratt í gegn og vísa að öðru leyti til nefndarálits.