136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

listamannalaun.

406. mál
[19:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það skýtur dálítið skökku við að á sama tíma og 150 milljarða halli er á ríkissjóði — honum þarf að ná niður á um þremur árum eða fyrr að kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, það verður ekki gert nema með því að fækka ríkisstarfsmönnum, lækka launin þeirra eða á einhvern hátt segja þeim upp að hluta til vegna þess að útgjöld ríkissjóðs eru 70% laun — eru menn að auka byrðarnar á þessum enda. Ég veit ekki hvað heilbrigðisstarfsmenn og aðrir starfsmenn í menntamálaráðuneytinu segja þegar á að fara að lækka launin þeirra eða segja þeim upp og á meðan er verið að auka útgjöldin hér.

Einnig er önnur leið til að ná fram afgangi á ríkissjóði, þ.e. að hækka skatta og þá kemur upp sú spurning hversu ánægðir íslenskir launþegar, sem margir hverjir hafa orðið illa úti vegna ýmissa atvika, t.d. verðbólgu og annars slíks, eru með að auka skatta enn frekar út af þeirri aðgerð sem hér er lögð til. Mér finnst málflutningur hv. þingmanns ekki fullnægjandi í þeirri stöðu sem þjóðarbúið er núna, að auka útgjöld og ég óttast að sá kostnaður lendi á einhvern máta á börnunum okkar.