136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

listamannalaun.

406. mál
[19:52]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að segja af því að síðasti ræðumaður, hv. þm. Pétur Blöndal, fór að nefna tónlistarhúsið, sem sá ráðherra sem hér stendur hafði ekki forgöngu um að byggja og var búið að leggja 10 milljarða í þegar framkvæmdir þar stöðvuðust. Ég heyri ekki betur en hv. þingmaður vilji helst rífa það niður fyrir fleiri hundruð milljónir og eyða þar með hátt á 11. milljarð í það að hafa ekkert á hafnarbakkanum. Ekki hefði mér dottið í hug sjálfri að fara út í svona dýra framkvæmd. En þegar verkið er hafið og komið jafnlangt hefði mér líka þótt ábyrgðarlaust að láta það standa óklárað, sem eilífur minnisvarði um það góðæri sem hér var en ekki beint aðdráttarafl, get ég ímyndað mér, fyrir þá ferðamenn sem við ætlum að reyna að sækja hingað til að koma með gjaldeyri, ekkert annað en ömurlegur minnisvarði um erfiða tíma. Mér finnst ábyrgðarleysi að segja: Það á bara að láta það standa, það á að rífa margra milljarða fjárfestingu. Gott og vel. Þetta finnst mér merkileg hagfræði hjá hv. þingmanni.

Ef við ræðum síðan aðeins um raunverulega atvinnu sem hv. þingmaður ræddi áðan. Á ekki að eyða peningum í raunverulega atvinnu? Það er gott að heyra hvaða álit hv. þingmaður hefur á rithöfundum þessa lands, tónlistarmönnum, öllum þeim listamönnum sem þó standa eftir núna þegar við höfum bankakerfi sem er hrunið. Fjármálaparadísin Ísland — var það ekki framtíðarsýnin? Hvað er það sem við eigum þegar við komum á erlenda grund? Hvað er það sem við eigum? Ég er að segja ykkur það, við eigum menninguna, við eigum íslenska tónlist, bókmenntir, við eigum okkar listamenn, það hefur ekki hrunið í þessu hruni. Þar erum við með inneign sem er í lagi. Hvernig er staðan hjá þessum listamönnum núna? Hvernig er hún? Hún er, vægast sagt, ekki góð, því að þeir hafa auðvitað reitt sig mjög á og sótt sér mjög fjármagn til einkageirans sem núna heldur að sér höndum. Hann er ekki í því að greiða þeim laun núna. (Gripið fram í: Er það vont?) Það er ekki vont, það er gott að einkageirinn styrkir listirnar þegar vel árar. Núna árar ekki vel og ætlum við þá að segja: Þá sitjið þið bara eftir, þið skuluð bara fara á atvinnuleysisbætur? Ég get sagt ykkur það, hv. þingmenn sem hér sitjið í salnum, að ég hef fengið nokkur bréf undanfarna daga út af þessu frumvarpi og fólk spyr: Af hverju læturðu ekki bara þessa listamenn vera á atvinnuleysisbótum, þeir gera hvort eð er ekki neitt? Vildum við verða af því sem þeir gera? Vildum við verða af þeim bókum sem þeir skrifa? Svo dæmi sé tekið. Erum við ekki alltaf að ræða um íslenska tungu í þessum sal? Ég veit ekki hversu oft er búið að ræða hana í vetur og fyrravetur. Hvernig ætlum við að efla hana? Með engu? Gott og vel.

Ég skil hins vegar að fólk hafi áhyggjur af peningum. Mér finnst það verðugt verkefni að eyða þeim í menningu þegar þeir eru til. Ég skil að fólk hafi áhyggjur af því. Hins vegar vill svo til að í þessu frumvarpi sem lá reyndar fyrir í drögum inni í ráðuneytinu þegar ég kom þar inn og lá meira að segja fyrir tillaga um hækkun á þessum launum, sem ég þó ákvað að hafa ekki inni í þessu, þá lá fyrir að til væru 89 millj. í ónýttum heimildum í þeim sjóðum sem veitt er úr til listamanna. Heildarkostnaðurinn við þetta verkefni er hins vegar í kringum 107 millj. Það er því rétt að árið 2012 kallar þetta á 17 millj. aukalega úr ríkissjóði, 17 millj. af því að við erum með ónýttar heimildir. Þetta er matarhola eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson nefndi áðan. En ég lít líka svo á að við verðum að velta því fyrir okkur hvernig við verjum peningunum okkar. Þegar við verjum peningum í menningu, hvort er þeim betur varið í það t.d. að byggja enn fleiri menningarhús eða nýta þá í fólk?

Nú vil ég hrósa forvera mínum í starfi, hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, en undir hennar stjórn var farið í menningarsamninga um land allt og þeir hafa reynst gríðarlega mikilvægir fyrir menningarstarf á landsbyggðinni. Ég styðst við það núna af því að ég er ný í þessu embætti að fólk um allt land segir að þetta hafi skipt höfuðmáli fyrir búsetuskilyrði að hafa þessa menningarsamninga, að hafa fjármagn í menningu í heimabyggð breyti öllu um það hvernig er að búa þar. Þess vegna segi ég: Þetta er jákvætt og þetta er gott, við erum að nýta fólkið sem þarna býr í menningarstarf.

Það er eins með listamannalaunin sem hefur ekki verið fjölgað síðan 1997, ekki verið fjölgað í 12 ár, þar erum við að nýta fólkið okkar. Við erum að nýta fólkið okkar í áframhaldandi sköpun. Við erum að nýta fólk sem skapar fleiri störf í kringum sig með þeirri vinnu sem það er að gera. Við erum að leggja áherslu á skapandi hugsun — sem ég held að ekki sé vanþörf á til að koma okkur út úr þessu hruni — að reiða okkur á sköpunarkraftinn í samfélaginu. Þess vegna lít ég svo á að þetta sé í raun ábyrg nýting fjármagns því að við erum að efla menninguna. Við erum að efla grunnstoðirnar sem er fólkið, það er mannauðurinn. Við erum að tala um að skapa störf, við erum að tala um atvinnuástand og þá held ég að skipti máli að fólk fari einmitt út þarna, að við hjálpum þeim að fara út og það virki fleiri með sér í menningarstarfsemi, í skapandi starfsemi.

Það er alveg rétt, ég hefði getað ákveðið að skera þetta niður, þessar ónýttu heimildir og spara þannig en ég held að það séu vænlegri leiðir annars staðar til niðurskurðar. Ég held að þetta sé góð nýting á fjármagni, að halda fólki að störfum fyrir í raun ekki há mánaðarlaun, þetta eru 266 þús. (Gripið fram í.) Hér erum við að tala um viðbótarframlag árið 2012 upp á 17 millj. sem auðvitað er ákvörðun þess þings sem þá situr í ljósi efnahagsástands, enda er sérstaklega kveðið á um það þegar rætt er um fjárhæð þessara launa. Ég vek athygli á því að hún á að miðast m.a. við efnahagsástand. Hvað verður eftir 2012 er síðan líka ákvörðun sem ber að taka. Það er alveg rétt, ég get ekki spáð fyrir um það hvernig efnahagsástandið verður þá, ég get ekki spáð fyrir um það hvernig árar þá og hvort við munum hafa fjármuni til að halda þessu áfram en ég lít svo á að við megum ekki horfa á þetta samfélag staðna af því að við eigum í erfiðleikum. Ég lít ekki svo á að við verðum að segja: Hér er stopp út af þessu.

Ég verð að segja af því að hér var rætt um tónlistarhúsið að það var ekki auðveld ákvörðun að klára það. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Pétri Blöndal að þetta er alveg geysilega dýr framkvæmd, 400 millj. í 35 ár er geysilega dýrt. Við rökstuddum það bæði með því að þarna stendur húsið hálfklárað og það skiptir máli að þar eru 600 störf. Hér horfum við á 33 ársverk sem verða til í lokin á þessu tímabili og aukafjárveitingin sem þarf við það eru 17 millj. Mér finnst það vera sæmileg nýting á fjármagni af því að ég er þess fullviss að það sem kemur okkur út úr þessu ástandi er m.a. skapandi hugsun, að hugsa hlutina upp á nýtt og það gerum við t.d. með því að efla listirnar hér á landi.

Ég hef farið aðeins yfir það hvernig þetta horfir við fjárheimildum menntamálaráðuneytis, þeim 89 millj. sem þar eru ónýttar í sjóðum. Ég lít svo á að við verðum að hugsa hvernig við nýtum þetta fé. Þetta er atvinnusköpun, það er í fyrsta lagi málið, og þetta er atvinnusköpun í skapandi geiranum sem hefur ekki fengið að fljóta með þegar við ræðum um atvinnusköpun í hinum hefðbundnu geirum, þegar við ræðum um að byggja hús, um mannaflsfrekar viðhaldsframkvæmdir sem eru mikið uppáhaldsorð allra stjórnmálaflokka. Þetta er atvinnusköpun í skapandi geiranum og þetta er tiltölulega lág fjárhæð miðað við mjög margt annað sem við erum að gera.

Ég vona að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hafa komið hér upp og andmælt þessu taki það líka til greina þegar þeir skoða þetta mál. Ég fagna því að fólki sé annt um ríkisfjármálin og velti fyrir sér hverri krónu en ég held, og ég ítreka það, að sköpun starfa í skapandi geiranum gæti verið einn af lyklunum fyrir okkur út úr því ástandi sem við erum komin í.