136. löggjafarþing — 116. fundur,  26. mars 2009.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[00:50]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var fullkomlega óskiljanleg ræða hjá hv. þm. Grétari Mar Jónssyni. Hér erum við að ræða frumvarp um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, frá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Hv. þingmaður á sæti í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Hv. þm. Grétar Mar Jónsson er flutningsmaður að þessu frumvarpi og ég hef satt að segja sjaldan heyrt aðra eins ræðu frá flutningsmanni máls eins og hér var flutt. Er eitthvert atriði í þessu frumvarpi sem hv. þingmaður flytur sem hann er sammála? Hvers lags eiginlega málflutningur er þetta?

Er þingmanninum fullkomlega fyrirmunað að standa við það sem hann ákveður í nefnd þegar hann er kominn í þingsalinn? Ber þingmaðurinn ekki ábyrgð á málinu eða er hann ekki fær um að bera ábyrgð á nokkru einasta máli? Þetta er alveg óskiljanlegt, hæstv. forseti. Ég á von á því að þeir sem sátu í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þegar ákvörðun var tekin um að flytja málið hafi reiknað með því að þar væri fullkomin samstaða. Annars hefði málið ekki verið flutt.

Hv. þm. Grétar Mar Jónsson tekur þátt í að flytja þetta mál en þegar komið er inn í þingsal heyrir maður algjörlega fullkomlega óskiljanlega ræðu frá þessum hv. þingmanni.