136. löggjafarþing — 116. fundur,  26. mars 2009.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[00:58]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Þetta var makalaust. Hv. þingmaður var flytjandi þessa máls og lagði það fram hér í Alþingi þar sem, eins og hann nefnir, var verið að setja reglur (GMJ: Ég var með fyrirvara, Arnbjörg. Ég var með fyrirvara.) Hv. þingmaður var ekki með fyrirvara þannig að því sé nú til haga haldið þrátt fyrir hans frammíköll hérna.

Hæstv. forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða sem fjallar að mestu leyti um frístundaveiðar. Þó eru önnur atriði í þessu frumvarpi sem snúa þá að því að — og kannski rétt að tiltaka það fyrst — þarna er verið að fjalla um það að sá afli sem fæst við veiðar í fræðsluskyni sé undanþeginn aflamarki.

Hér hefur verið nefnt að settur hafi verið á fót starfshópur til þess að fara yfir það hvernig rétt væri að setja regluverk í kringum svokallaðar frístundaveiðar. Ljóst er að mikil nauðsyn er á því að þessi vaxandi atvinnugrein, frístundaveiðarnar, þ.e. að í kringum þær veiðar og í kringum ferðaþjónustuna þar sem verið er að nýta auðlindina til þess að veita ferðamönnum afþreyingu sé nauðsynlegt að setja eitthvert regluverk. Lagt var fram frumvarp á síðasta þingi sem ekki náði fram að ganga og kom í ljós í vinnu við það frumvarp að mörg atriði þyrfti að skoða og fara yfir vegna þessara frístundaveiða. Hæstv. þáverandi sjávarútvegsráðherra Einar K. Guðfinnsson ákvað því að setja á fót starfshóp sem var gert 20. febrúar 2008. Í starfshópnum áttu sæti Hrefna Gísladóttir frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, Eyþór Björnsson frá Fiskistofu, Elías Guðmundsson frá Hvíldarkletti, Finnur Jónsson frá Sumarbyggð og Eydís Aðalbjörnsdóttir frá Samtökum ferðaþjónustunnar. Síðar tók Steinar Ingi Matthíasson við starfi Hrefnu Gísladóttur sem fór í leyfi og lauk hann starfinu með okkur. Ég sjálf átti sæti í þessum starfshópi og veitti honum formennsku.

Það sem við ákváðum að gera í þessum starfshópi var að reyna að fá yfirsýn yfir þá sem bjóða upp á sjóstangaveiði fyrir ferðamenn. Við komumst að því að kannski mætti skipta þessari ferðaþjónustu í fjóra flokka. Í fyrsta lagi eru það þá veiðarnar á frístundafiskiskipunum sem hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni. Í öðru lagi má nefna bátaleigur sem bjóða viðskiptavinum að leigja sjóstöng og veiða á sjóstöng. Í þriðja eru það lagi farþegaskip og hvalaskoðunarskip sem bjóða einnig sjóstangaveiði. Í síðasta lagi er það strandveiðin svokallaða.

Við vorum sammála um að hluti af þessum aðilum stunda veiðar í svo litlu magni að ekki er tilefni til þess alla vega að svo stöddu að búa til sérstakt kerfi til að halda utan um þessar veiðar. Því var tekin ákvörðun um að skipta þessum ferðaþjónustuaðilum í tvo flokka. Annar flokkurinn nær til aðila í ferðaþjónustu, þeirra sem nú í dag bjóða upp á ferðir til veiða á frístundafiskiskipum, þ.e. aðilum eins og Sumarbyggð og Hvíldarkletti, þeim fyrirtækjum á Vestfjörðum sem bjóða þá þjónustu og þar sem eru markvisst stundaðar fiskveiðar. Hinn flokkurinn nær til þeirra sem bjóða blandaðar ferðir þar sem sjóstangaveiði er mjög óverulegur þáttur í þeim ferðum sem þeir aðilar bjóða upp á. Enn fremur var tekin ákvörðun um að halda strandveiði algerlega utan við þetta viðfangsefni.

Viðfangsefnið er þetta, ferðaþjónustan og það ber að horfa á þetta mál út frá því sjónarhorni, þ.e. í raun eingöngu 2. gr. sem má segja að í frumvarpinu stafi frá þessari vinnu okkar í starfshópnum.

Frístundaveiðar eru sjávartengd ferðaþjónusta og það er vaxandi eftirspurn eftir henni. Ísland sem er mjög eftirsótt ferðamannaland hefur auðvitað alla burði til þess að geta orðið mjög leiðandi í sjávartengdri ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan hefur vaxið umtalsvert undanfarin ár og er orðin ein af meginatvinnugreinum þjóðarinnar og hefur ýmsa möguleika til að eflast enn frekar. Ferðaþjónustan sem slík hefur jafnframt verið einn helsti vaxtarbroddur og drifkraftur atvinnulífs og atvinnuþróunar á landsbyggðinni. Henni fylgir meiri fjölbreytni í framboði á þjónustu, afþreyingu og menningu en ella væri. Til þessa hefur samt langstærstur hluti ferðamanna verið á höfuðborgarsvæðinu og í næsta nágrenni við það. Frístundaveiðar á Íslandi eru ný tegund af ferðaþjónustu og í þeirri þjónustu felast því einnig mjög mikil tækifæri fyrir ferðaþjónustuna.

Vestfirðir hafa haft frumkvæði og forustu í þessu máli og þá ber sérstaklega að nefna þessi tvö fyrirtæki, Sumarbyggð og Hvíldarklett. Varðandi þjóðerni þeirra ferðamanna sem helst sækja á Vestfirði til þess að stunda þessar veiðar þá gera það Norðmenn og Danir en sérstaklega Þjóðverjar. Þýskir sjóstangveiðimenn eru þeir veiðimenn sem oftast fara til útlanda til þess að veiða á sjóstöng og þeir eru stór hluti þeirra ferðamanna sem koma til þessara fyrirtækja.

Ég hefði gjarnan viljað fjalla aðeins meira um þessa stöðu sem skiptir mjög miklu máli, þ.e. hvaða stöðu ferðaþjónustan hefur í byggðaþróun. Þarna eru mjög miklir möguleikar til þess að efla byggð og efla ferðaþjónustu til þess að hún geti orðið atvinnuskapandi í sjávarbyggðum landsins. En þess vegna er mjög nauðsynlegt að menn viti á hvaða grunni þeir standa þegar stofnuð eru fyrirtæki sem eiga að byggja á því að selja aðgang að auðlindinni og fyrirtæki sem ætla að reka sjávartengda ferðaþjónustu.

Ég hef nokkuð fjallað hérna um þau fyrirtæki tvö sem skara fram úr á þessu sviði. Þau eru Hvíldarklettur og Sumarbyggð. Afli þeirra hefur verið um 250 tonn eða þar um bil og má segja að þorskur í þeirra afla sé um 220 tonn. Aðrar tegundir eru mjög óverulegar.

Þegar við horfum aftur til umfangs veiða í hvalaskoðun og sjóstangaveiði þá er sagan nokkuð önnur. Nokkur fyrirtæki í ferðaþjónustu reka báta og bjóða upp á skoðunarferðir á sjó. Ekki er óalgengt að einnig sé boðið upp á veiðar með sjóstöng í slíkum ferðum þar sem hvalaskoðun er annars vegar og sjóstangaveiði er hins vegar. Það er mjög mismunandi hvernig þessu er háttað. Hvalaskoðun er til dæmis stór hluti margra fyrirtækja en þeir taka samt með sjóstangir. Við fengum dæmi um að um borð í slíkum skipum gætu verið allt að 30 sjóstangir en hversu mikill afli kemur um borð er ekki vitað. Eitt af því sem við lögðum áherslu á var að menn settu upp skráningarkerfi þannig að þeir hefðu einhverja hugmynd um hversu mikið magn væri í raun verið að veiða bæði hjá þeim sem bjóða sjóstangaveiði og þeim sem bjóða þessar blönduðu ferðir, þ.e. hvalaskoðun og sjóstangaveiði.

Við komumst sem sagt að þeirri niðurstöðu að skipta þessum veiðum í tvo flokka en við vildum líka leggja áherslu á að menn hafi þessi leyfi á hreinu og það verði gefin út leyfi til þess að stunda þessa atvinnugrein og að þessi leyfi séu þá tvenns konar.

Hæstv. forseti. Ég sé að tími minn er að renna út en ég vil nefna það að þessi leyfi eru þannig að annars vegar er um að ræða leyfi til aðila í ferðaþjónustu sem bjóða upp á blandaðar ferðir og hins vegar leyfi til þeirra sem bjóða upp á sérstakar ferðir til fiskveiða með sjóstöng og þann afla má sem sé fénýta. Hann fer á vigt og fer um hann að öllu leyti eftir þeim reglum sem gilda um þá sem stunda atvinnuveiðar. Hér er því auðvitað um verulegan mun að ræða á þessum aðilum.

Ég vil taka fram líka hér í restina af því að tími minn er búinn að við í hópnum lögðum mikla áherslu á að skýrsluskil yrðu að vera nokkuð nákvæm hjá þeim aðilum sem stunda þessar veiðar, þ.e. blandaðar sjóstangaveiðar. En ég sé að í frumvarpinu, sem var samið í ráðuneytinu, er ekki lögð jafnmikil áhersla á það. Hins vegar er tekið inn í frumvarpið ákvæði um að byggðakvóta megi nýta í þessu skyni. Það var (Forseti hringir.) aftur á móti ekki atriði sem við í starfshópnum fjölluðum um. Þess vegna kemur mér nokkuð á óvart að þetta (Forseti hringir.) sé hér inni með þessum hætti.