136. löggjafarþing — 116. fundur,  26. mars 2009.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[01:46]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins koma aftur eingöngu til að ræða örfá atriði sem ég komst ekki í að ræða rétt áðan. Það væri synd að segja, hæstv. forseti, að hér hefði farið fram markviss umræða um þetta annars ágæta og merka mál því að hér er ekki einu sinni framsögumaður málsins til að ræða það. Hér vantar algjörlega sjónarmið formanns nefndarinnar og til dæmis sjónarmið úr Samfylkingunni því að þeir þingmenn eru einfaldlega ekki til staðar.

Eins og ég sagði eru mörg atriði sem þyrfti að ræða og skýra betur af því að það er hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd sem flytur málið og ber ábyrgð á því. Þess vegna hefðu þurft að koma fram sæmilegar skýringar á einstökum þáttum málsins sem ekki gefst nú tími til. Ég vildi, hæstv. forseti, benda á að eitt af því sem þetta mál felur í sér er að m.a. er gert ráð fyrir því að hægt sé að veita smábátum, sem stunda atvinnuveiðar sem smábátar, samkvæmt þessum tillögum tímabundið leyfi á tímabilinu 1. maí til 31. ágúst til að stunda frístundaveiðar og fá leyfi til þess að stunda þær, en eingöngu með því skilyrði að þeir stundi ekki veiðar í atvinnuskyni á því sama tímabili. Ég held að það sé rétt að þetta komi fram þannig að það eru ekki eingöngu svokallaðir frístundaveiðibátar sem eru sérstaklega til þess ætlaðir sem geta fengið þetta frístundaveiðileyfi. Þetta er eitt af þeim atriðum sem við vitum að getur verið umdeilt og þyrfti að ræða betur.

Hér var Fiskistofa nefnd og áhyggjur fiskistofumanna af því hvernig væri hægt að fylgjast með þessum veiðum. Því er rétt að nefna að fulltrúi Fiskistofu var einmitt í starfshópnum og hann sá ekki þessa annmarka sem menn eru að reyna að lýsa á því hvernig væri hægt að hafa eftirlit með þessu. Sérstaklega var farið að tillögum hans um það hvernig rétt væri að gefa út leyfin og hvernig væri möguleiki á að fylgjast með veiðunum. Til þess nutum við auðvitað ráðlegginga frá þeim fulltrúa sem kom frá Fiskistofu.

Við erum að tala um nýja atvinnugrein, við erum að tala um ferðaþjónustugrein og við tókum það sérstaklega fram í skýrslu starfshópsins. Við vildum benda á að í vinnu okkar hafi komið fram að það væri mikilvægt að Ferðamálastofa mótaði reglur um þessa nýju atvinnugrein á sviði ferðamála. Það verður þá leitast við að halda uppi og viðhalda gæðum og ímynd þeirrar þjónustu og atvinnustarfsemi sem hér um ræðir. Það skiptir nefnilega miklu máli þegar það starf sem nú þegar hefur verið unnið við það að byggja upp þessa atvinnugrein og búa til ímynd að ferðaþjónustan standi undir þeirri ímynd og þeim gæðum sem nú þegar hafa verið byggð upp og mótuð. Hún hefur verið sú söluvara sem erlendir ferðamenn sækjast eftir og það er brýnt að erlendir ferðamenn, og Íslendingar auðvitað líka, geti gengið að þessum gæðum vísum þegar þeir koma til landsins til að stunda þessar veiðar.