136. löggjafarþing — 120. fundur,  31. mars 2009.

tollalög og gjaldeyrismál.

462. mál
[23:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það eru örugglega einhverjir úti í þjóðfélaginu þingmönnum Sjálfstæðisflokksins þakklátir fyrir kennslustundir í því hvernig hægt sé að komast fram hjá þessum reglum, og öllum reglum í þessum efnum eins og við heyrðum í ræðu hv. þm. Péturs Blöndals sem hélt lærðan fyrirlestur um það hvernig menn gætu mögulega farið fram hjá þessu. Var að hluta til undir tekið það áðan.

Ég vek athygli manna á því að það að gjaldeyrisskilareglurnar haldi er mikilvægt innlegg í að við getum linað gjaldeyristakmarkanir hvað varðar fjármagnshreyfingar úr landi og að við getum þá tappað af þeim þrýstingi sem vera jöklabréfanna og lauss fjár í eigu erlendra aðila er í hagkerfinu, er hér á fóðrum og tekur ærna vexti með sér út úr landinu mánaðarlega.

Það er jákvæður viðskiptajöfnuður upp á umtalsverðar fjárhæðir í hverjum mánuði og ef þær gjaldeyristekjur skila sér inn í landið auðveldar það okkur að sjálfsögðu að létta þrýstingnum af takmörkunum á fjármagnshreyfingum og með öðrum aðgerðum sem til þess eru ætlaðar mun það auðvelda okkur að komast út úr þeirri stöðu. Ég vona að hv. þingmenn, og þar á meðal þingmenn Sjálfstæðisflokksins, skilji það.

Það er okkur lífsnauðsynlegt að njóta þessa jákvæða viðskiptajöfnuðar og fá þann gjaldeyri inn í landið til að styrkja gengi krónunnar, til að byggja upp gjaldeyrisforða, til að við getum síðan tekist á við ójafnvægið sem leiðir til jafnvægis. Viðskiptajöfnuðurinn var jákvæður samtals um yfir 10 milljarða króna á tveimur fyrstu mánuðum ársins. Í ljósi þess hve lítil veltan er á gjaldeyrismarkaði ætti það að hjálpa umtalsvert til við styrkingu krónunnar ef allt væri með felldu. Það hefur hins vegar ekki gerst og ástæða er til að ætla að þessi leki eigi sinn þátt í því. Það sem hér er verið að gera er einmitt að búa í haginn til að menn geti náð eðlilegu ástandi á hlutina á nýjan leik.