136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[23:57]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir orð síðasta ræðumanns, að það algerlega nauðsynlegt fyrir ríkisstjórnina að bregðast við því ef verkefni eru að fara úr landi vegna þess að Írar gera betur í endurgreiðslum. Það væri áhugavert að fá svör hæstv. fjármálaráðherra sem er hér einhvers staðar í hliðarsölum og hann mundi kannski svara því hvernig ríkisstjórnin ætlar sér að bregðast við þessu atriði nákvæmlega. Því að við megum nú satt að segja ekki á þessum tímum við því að missa eitt einasta starf úr landi vegna þess að ríkisstjórnin bregst ekki nógu hratt við. Það er nauðsynlegt að minna á að hún ætti að taka til sinna ráða í þessu efni.

Hæstv. forseti. Það að ég kem hér aftur í ræðu er vegna þess að mér láðist að geta þess að ég hef undir höndum skýrslu frá 2007 þar sem er bent á að það er hægt að skapa 3.000 ný störf fyrir árið 2012 í myndmiðlaiðnaðinum á Íslandi. Ég held að það sé virkilega athugunarefni að skoða þessa skýrslu mjög vel og fara ofan í það hvernig þessi nýju störf gætu orðið.

Höfundur skýrslunnar er Böðvar Bjarki Pétursson, framkvæmdastjóri og eigandi Kvikmyndaskóla Íslands. Í henni er greining á myndmiðlaiðnaðnum sem má í grófum dráttum skipta upp í sex svið: Það er þannig að hjá sjónvarpsstöðvum RÚV, 365, Skjá einum og Omega eru um 800 ársverk. Síðan eru framleiðslufyrirtæki eins og Latibær og CCP og fleiri sem eru með 300 ársverk. Þá eru framleiðslufyrirtækin Sagafilm, Pegasus, Basecamp og fleiri með 200 ársverk. Framleiðslufyrirtæki sem eru með megináherslu á gerð leikinna bíómynda eru með 150 ársverk og framleiðslufyrirtæki með megináherslu á smærri verkefni, heimildarmyndir og kynningarmyndir og svoleiðis nokkuð eru með 100 ársverk. Í sjötta lagi eru þjónustufyrirtæki sem sinna sérhæfðum þáttum í iðnaðinum með 70 ársverk. Samtals eru þetta 1.620 ársverk. Það er sem sagt möguleiki á að fjölga þessum störfum um 3.000 sem finna má í þessum sex þáttum myndmiðlaiðnaðarins sem ég held að sé full ástæða til að líta til á þessum tímum.

Einnig eru miklir möguleikar í því að flytja störf út á land, eins og hér hefur reyndar komið töluvert fram í umræðunni í dag. Ég hlýt að leggja áherslu á að menn nýti menningarlandslag okkar og menningarumhverfi til þess að byggja frekar ofan á þessa atvinnugrein.

Hæstv. forseti. Það er nú búið að fara mjög vel yfir þetta mál í dag en það eru hins vegar töluverð vonbrigði að ráðherrar skuli ekki vera hér til að hlýða á þessi mál. Sem betur fer er hér kominn formaður iðnaðarnefndar sem ég veit að hefur fylgst af áhuga með umræðunum í dag en hefði gjarnan mátt bregðast við þeim spurningum sem hefur verið beint til formannsins. En hún gerir það kannski í ræðu í lok umræðunnar og væri full ástæða til þess að hún svaraði einhverju af þessum spurningum. Ég hlýt (Forseti hringir.) að reikna með því að fá (Forseti hringir.) einhver svör frá formanninum vegna þeirra spurninga sem hér hafa (Forseti hringir.) komið fram í dag.