136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[00:05]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Í sjálfu sér er ágætt að heyra forseti svara því að halda eigi áfram enn um sinn og halda áfram með dagskrána, en það vill nú svo til að 19 mál eru á dagskrá þessa fundar.

Á morgun er opinn fundur í viðskiptanefnd klukkan hálftíu. Þingmenn sem þar eru þurfa að undirbúa sig. Aðrir fundir eru líka á morgun og við eigum alveg eins von á því að stórt mál verði til umræðu hér á þingi á morgun sem þingmenn þurfa einnig að undirbúa sig undir. Það dugar því ekki sem svar, ég tala nú ekki um fyrir fjölskyldufólk sem þarf að gæta að börnum á nóttunni, að hér eigi að halda áfram enn um sinn þegar 19 mál eru órædd á dagskránni. Það væri mjög mikil bót og bragur af hálfu forseta, herra forseti, ef hann gæti gefið einhver nánari fyrirheit um það hversu langan tíma er verið að tala um. Er verið að tala um klukkutíma, tvo klukkutíma eða hefur hæstv. forseti hugsað sér að halda áfram hér alveg undir morgun?