136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[00:08]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Það orðbragð sem hér er viðhaft sæmir ekki þinginu. Ég vil benda forseta á að það er vítavert, a.m.k. í minni orðabók. Ég ætla að biðja hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur að hafa sig hæga og halda ró sinni. Mér finnst furðulegt að hún lýsi því hér yfir að hún botni ekkert í þessari umræðu. Hv. þingmaður hefur gefið sig út fyrir að vera fjölskyldukona og vilja hag fjölskyldunnar mikinn. Ég er líka fjölskyldumaður og þarf að fá upplýsingar um það frá forseta hvort ég þarf að gera frekari ráðstafanir varðandi heimilishald mitt inn í nóttina. Þegar forseti upplýsir um að fundi verði haldið áfram eitthvað um sinn nægja þær upplýsingar mér ekki.

Forseti skildi reyndar eftir fleiri spurningar en fyrir voru þegar hann svaraði fyrirspurn minn. Hann sagði að senn liði að þinglokum (Forseti hringir.) eða lokum þingfunda. Getur hæstv. forseti upplýst mig um það hvenær þingfundum verður lokið hér á hinu háa Alþingi?