136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

Hatton-Rockall svæðið og deilur við Breta.

[11:10]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti, hv. þingmaður hóf mál sitt með því að segja að utanríkisráðherra hefði verið giska brattur á síðasta ári. Ég get trúað hv. þingmanni fyrir því að utanríkisráðherra er enn nokkuð brattur þótt ekki sé langt liðið á hið nýja ár. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að við höfum átt í langvinnum samningum um Hatton-Rockall svæðið. Við teljum að þar séu fólgin töluverð verðmæti í jörðu undir hafsbotni. Einnig hefur það mörgum sinnum komið fram í máli mínu á síðustu árum að ég tel að þar séu líka annars konar verðmæti í formi lifandi auðlinda á miklu dýpi, sem við þurfum að gera tilkall til. Bretar hafa nú komið fram með ákveðna kröfu til viðeigandi alþjóðastofnana. Hins vegar er þetta mál algerlega bundið í tiltekna samninga sem segja hvað einstakar þjóðir geta leyft sér og hvað ekki. Það er alveg ljóst að Bretar geta ekki fengið hljómgrunn gagnvart þessari kröfu og sett hana fram með þeim hætti sem þeir gera nema Ísland, Færeyjar og hugsanlega fleiri þjóðir heimili það og við munum ekki heimila það. Við undirbúum nú þegar svar okkar við þessu og það verður afhent eigi síðar en í næsta mánuði. Það liggur meira og minna fyrir og hér er um að ræða mál sem hefur verið í deiglu árum saman og miklum fjármunum hefur verið varið í undirbúning þess af hálfu íslenskra stjórnvalda, m.a. af hálfu stofnana iðnaðarráðuneytisins

Þetta mál er óskylt deilu okkar um Icesave-reikningana. Hitt er rétt sem hv. þingmaður sagði að við höfum átt viðræður út af þeim málum og þau eru í betri farvegi en áður. Menn eru að skoða ákveðna hluti sem Íslendingar hafa komið með inn í þá deilu og við erum að reyna að leita pólitískra lausna þannig að það mál sé ekki eingöngu í samningum milli fjármálaráðuneyta þjóðanna. Nú er það þannig að utanríkisráðuneytin hafa líka komið að því og ég er vongóður um (Forseti hringir.) að á þessu ári náist lausn í því máli sem verði ekki (Forseti hringir.) óhagkvæm þeim tveimur þjóðum sem deila.