136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[11:59]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnarskrárn. s. (Björn Bjarnason) (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil eindregið taka undir orð hv. þm. Sturlu Böðvarssonar og áskorun hans til forseta um að leita sátta um dagskrána. Það er alveg augljóst að þingstörfum er þannig háttað núna að nauðsynlegt er að forseti Alþingis taki þannig á málum að leitað sé sátta um meðferð mála.

Hér hefur komið fram mjög eindregin og hörð gagnrýni á það hvernig málum er raðað á dagskrána og ég undrast að hæstv. forseti skuli ekki verða við eindreginni áskorun um að setjast niður með forustumönnum þingsins í von um að sátt takist um það hvernig dagskrá dagsins verður háttað. Það er alveg augljóst að dagskránni er raðað þannig að hin brýnu mál — enda kom það fram í máli hv. þm. Framsóknarflokksins, Höskulds Þórhallssonar, að hann taldi að brýnni mál væru til afgreiðslu heldur en þetta stjórnarskrármál — (Gripið fram í.) þannig að ég tel, hæstv. forseti, að það sé skylda forseta við þessar aðstæður að gera hlé á fundinum og leita sátta til að þessi dagskrá nái fram að ganga í dag.