136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil ítreka spurningu mína til hæstv. forseta um það hvenær þingið fari heim til þess að kynna kjósendum sjónarmið sín fyrir kosningar. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins töluðu þó nokkrir við mig, sérstaklega utan af landi þar sem erfitt er yfirferðar og langt í kjósendur, og veltu því fyrir sér hvenær í ósköpunum þingmenn landsbyggðarinnar færu út á land. Þetta átti nú reyndar ekki við í mínu kjördæmi því að þar er stutt á milli.

Menn höfðu áhyggjur af því að þeir fengju ekki að hitta þingmanninn sinn og fengju ekki að stunda neina kosningabaráttu. Ég veit ekki hvað Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu segir við því ef grunnatriði lýðræðis er ekki sinnt, þ.e. að kosningabarátta geti átt sér stað.