136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:49]
Horfa

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vill svo til að ég var með ræðu mína meira og minna skrifaða og hún er svo tekin upp á band þannig að ef viðkomandi hv. þingmaður getur sýnt mér fram á að ég sé að hvítþvo útrásarvíkingana biðst ég afsökunar á þeim orðum, en til þess var ræðan ekki haldin. Þvert á móti var ég með mínum hætti að benda á að samfelld valdaaðstaða hvaða flokks sem væri gæti verið hættuleg þjóðfélaginu þar sem sá flokkur starfar. Ég var ekki að gera lítið úr hugsjónum eða hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins per se, ég sagði bara að valdið slævði dómgreindina og ylli ákveðinni þjónkun og hollustu og meðvirkni sem hefði m.a. haft þau áhrif að allt hrundi hjá okkur. Ég tók líka fram í ræðu minni að aðrir flokkar hefðu tekið þátt í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum (Forseti hringir.) og ættu sína sök og sína ábyrgð. Ég dró ekkert undan með það.