136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnarskrárn. s. (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mannréttindi eru mikilvæg og mikilvæg ákvæði um mannréttindi voru sett inn í stjórnarskrá 1995, minnir mig. Það er ekki nokkur vafi á því að allir telja mikilvægt að stjórnarskráin fjalli um mannréttindi.

Hversu bundið er Alþingi af þeim drögum að frumvarpi sem þarna liggur fyrir? Ég held að það geti fyrst og fremst orðið leiðbeinandi. Þetta eru ekki orðin lög. En svo er það sem hv. þingmaður veltir mikið fyrir sér og varðar það hvort stjórnarskrárgjafinn sé beggja vegna, hvort hann sé bæði hjá Alþingi og hjá stjórnlagaþinginu. Ég skil þetta þannig að ekki sé útilokað að samþykkt yrði á Alþingi breyting á stjórnarskrá, eftir að sú breyting sem við erum að fjalla um núna hefur verið staðfest, sem yrði síðan send til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.