136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

um fundarstjórn.

[20:36]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mér finnst það eiginlega ekki alveg ganga að hæstv. forseti skuli ekki svara þeim spurningum sem lagðar eru fram um skipulag fundarins, í fyrsta lagi hversu lengi hæstv. forseti hyggist halda áfram fundi í kvöld og í öðru lagi hvort hæstv. forseti hyggist fresta því máli sem nú er á dagskrá þannig að hægt sé að ræða stjórnarskrá lýðveldisins í dagsljósinu.

Til viðbótar, hæstv. forseti, hljótum við að reikna með því að flutningsmenn þess máls sem liggur hér fyrir, frumvarps til breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Birkir J. Jónsson og Guðjón A. Kristjánsson, hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar, verði við umræðuna. (BJJ: Ég er hér.) Það er með ólíkindum (VS: Málið er hjá þinginu.) (Forseti hringir.) að þessir flutningsmenn skuli ekki vilja fylgjast með framgangi málsins (Forseti hringir.) í Alþingi.