136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:43]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég vísi bara aftur í 65 ára gamla — nei, ekki 65 ára gamla heldur tilraun sem staðið hefur í 65 ár til að svara þessari síðustu spurningu.

Af því að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir nefndi hér að efla löggjafarsamkunduna þá vil ég minna á hvernig komið er fyrir þessu þingi. Á síðustu þremur þingum voru lögð fram 425 mál talsins. 268 voru ríkisstjórnarfrumvörp en 157 voru þingmannafrumvörp eða um 37%. Af samþykktum frumvörpum voru ríkisstjórnarfrumvörpin 96,5% eða 217 af 268. Á móti voru átta af 157 þingmannafrumvörpum samþykkt á þessum þremur þingum. Þau hafa því heldur lítinn stuðning í þinginu þó að þau séu lögð fram af stjórnarþingmönnum.

Þingið sjálft hefur samkvæmt þessu tapað miklu af völdum sínum til ráðherranna. Stjórnarþingmenn tilheyra yfirleitt liðsheild sem passar upp á að mál séu afgreidd eins og til er ætlast og það sjáum við svo sannarlega í þessari umræðu hér. Það sýnir hinn mikli meiri hluti ríkisstjórnarmála sem er samþykktur.

Stjórnarandstaða er af tvennum toga. Þeir sem samþykkja góð mál og leggja þeim lið og svo þeir sem eru eiginlega alltaf á móti. En ég held að það sé alltaf að fjölga í fyrrnefnda hópnum.

Talandi um öfluga löggjafarsamkundu þá er ég sannfærð um að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er mér sammála um að þingið verði best eflt með því að aðgreina löggjafarvald og framkvæmdarvald því að öðrum kosti sitjum við uppi með það sem hefur til margra ára verið kallað ráðherraræði og þykir ekki góð stjórnsýsla.