136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

leiðtogafundur NATO.

[11:06]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur að það hefði vissulega verið betra ef hæstv. forsætisráðherra hefði átt heimangengt og getað sótt leiðtogafund NATO. Þannig er málum því miður ekki fyrir komið og hæstv. utanríkisráðherra er fullfær, eins og við vitum báðar, um að sinna því hlutverki fyrir okkar hönd.

En við sem í þessum sal erum vitum að hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir er ekki komin upp í ræðustól vegna sérstakrar umhyggju sinnar fyrir forsætisráðherra eða öðru því sem fram fer á NATO-fundinum heldur vegna þessa látlausa ergelsis sem Sjálfstæðisflokkurinn sýnir nú trekk í trekk í þingsal, hraunandi yfir allt og alla, ef þannig má að orði komast, (Gripið fram í.) hæstv. forseti, en ekki vegna þess að hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir hafi í raun einhverjar athugasemdir við það hvernig haldið hefur verið á samningaviðræðum um Icesave (Gripið fram í.) frá því í október, hún hefur ekki gert nokkrar athugasemdir við það. Að hafa mestar áhyggjur á þessum degi af dagskrá tiltekinna ráðamanna þjóðarinnar sýnir best hvar Sjálfstæðisflokkurinn er staddur í hinni pólitísku umræðu.