136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

leiðtogafundur NATO.

[11:14]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að víkja aftur að utanríkismálunum vegna þess að hér var talað um fund hæstv. utanríkisráðherra við David Miliband, utanríkisráðherra Bretlands. Ég spyr þá hv. formann utanríkismálanefndar: Hvar er upplýsingagjöf hæstv. utanríkisráðherra til utanríkismálanefndar um þann fund? Við höfum ekki fengið upplýsingar um hann. (Gripið fram í: Viltu ekki beina spurningunni til ráðherra?) Nei, ég er að beina spurningunni til formanns utanríkismálanefndar sem getur þá kallað eftir því að fá hæstv. ráðherra á okkar fund.

Annað sem ég vildi nefna í tengslum við þennan ágæta leiðtogafund sem nú fer fram er að ég man ekki betur en að ég og formaður flokks hv. formanns utanríkismálanefndar, Steingrímur J. Sigfússon, höfum staðið hér fyrir leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í Rúmeníu þar sem formaðurinn talaði sig bláan í framan um það hneyksli að utanríkismálanefnd hefði ekki fengið þáverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra á sinn fund til að greina frá áherslum Íslendinga á þeim leiðtogafundi þar sem verið var að taka fyrir alls konar mikilvæg mál. Núna höfum við minnihlutastjórn og hluti hennar, a.m.k. hluti Samfylkingarinnar eftir því sem ég best veit, er hlynntur veru í Atlantshafsbandalaginu. Vinstri grænir eru ekki hlynntir veru okkar í Atlantshafsbandalaginu. Á þessum fundi á að tala um framtíðarhlutverk Atlantshafsbandalagsins, samskipti þess við Rússland, aðgerðir bandalagsins í Afganistan og Kosovo o.s.frv. (Gripið fram í.) Við hv. fyrrverandi varaformaður utanríkismálanefndar vorum sammála um það í apríl sl. að það væri góður bragur að því að gera það að vinnureglu í þinginu að fyrir leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins mundu forsætisráðherra og utanríkisráðherra koma á fund utanríkismálanefndar og greina frá þeim málum sem helst yrðu á dagskrá leiðtogafundarins og jafnframt frá afstöðu Íslands til einstakra mála. Leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins hefur aldrei verið ræddur í utanríkismálanefnd. Ég spyr: (Forseti hringir.) Fer hæstv. utanríkisráðherra með boðskap Vinstri grænna (Forseti hringir.) eða boðskap okkar hinna sem viljum vera í Atlantshafsbandalaginu (Forseti hringir.) inn á fundinn? Hvað með upplýsingaskylduna (Forseti hringir.) til utanríkismálanefndar, virðulegi formaður?