136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

leiðtogafundur NATO – atvinnumál námsmanna.

[11:24]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Atvinnuhorfur námsmanna við Háskóla Íslands og aðra háskóla batna lítið þó að andinn á fundi menntamálanefndar sé ágætur, fundi sem ríkisstjórnin og meiri hlutinn á þingi var knúinn af hálfu hv. þm. Einar K. Guðfinnssonar til að halda. (Gripið fram í: Hann var ekki knúinn.)

Ég hef margoft talað um þetta mál í ræðustóli Alþingis á síðustu dögum. Ég vísa til þess að á forsíðu Morgunblaðsins kom fram að mörg þúsund nemendur verða án vinnu í sumar. Þeirra kröfur eru skýrar, að teknar verði upp sumarannir við Háskóla Íslands til að þeir geti stundað sitt nám á námslánum í staðinn fyrir að mæla göturnar í atvinnuleysi í sumar.

Ríkisstjórnin hefur ekkert gert til að koma til móts við kröfur þessa fólks sem nú horfir fram á atvinnuleysi. Ekki neitt. Hún er gjörsamlega úrræða- og aðgerðalaus. Þetta er í fyrsta skipti sem einhver fulltrúi ríkisstjórnarinnar ræðir þetta mál á þingi. (Gripið fram í.) Ég hef sjálfur rætt um framtíð þessara mála við stúdenta í Háskóla Íslands. Þeir hafa miklar áhyggjur og ég styð þá eindregið í því að teknar verði upp sumarannir í Háskóla Íslands en ríkisstjórnin virðist ekki ætla að gera neitt, ekki í atvinnumálum stúdenta frekar en í atvinnumálum fólksins í landinu.

Hér leggur ríkisstjórnin aðaláherslu á að breyta stjórnarskránni sem hefur ekkert með atvinnumál í landinu að gera og minnir dálítið á atburðina í fyrndinni þegar Róm brann. Þá spilaði Neró á fiðlu. (Gripið fram í.) Nú er staðan orðin þannig að fiðluleikurinn er hafinn í þinghúsinu og ráðherrarnir eru farnir að spila á fiðlu við falskan undirleik Framsóknarflokksins á meðan heimilin og fyrirtækin í landinu (Forseti hringir.) brenna. Ég held að menn ættu frekar að einbeita sér að atvinnumálum (Forseti hringir.) fólksins í landinu og berjast gegn atvinnuleysi en að reyna að breyta (Forseti hringir.) stjórnarskránni, forseti sæll. [Hlátur í þingsal.]