136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

umræða um dagskrármál.

[11:51]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Mér fannst athyglisvert að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir treysti sér til að fullyrða í ræðu áðan að öll sjónarmið væru komin fram í stjórnarskrármálinu. Mér finnst það mikil dirfska af hálfu hv. þingmanns að halda því fram. Hún hefur auðvitað ekki hugmynd um hvaða sjónarmið eiga eftir að koma fram í þeim ræðum sem á eftir að flytja hér.

Þegar ég flutti ræðu mína í gær komst ég ekki yfir nema kannski helminginn af þeim efnisatriðum sem ég ætlaði að fara yfir. Enn á ég eftir að fjalla mjög ítarlega um breytingartillögur meiri hlutans í sérnefnd um stjórnarskrármál og það vantar skýringar, frá bæði nefndarmönnum og afstöðu flutningsmanna frumvarpsins til þessara breytingartillagna sem auðvitað skipta verulegu máli.

Mér fannst athyglisvert að hv. þm. Birkir J. Jónsson skyldi tala um stjórnlagaþing Framsóknarflokksins. Þá er rétt að vekja athygli á því að þetta er þriðja stjórnlagaþingið sem Framsóknarflokkurinn kemur með inn í þingið á sex vikum, þriðja útgáfan á stjórnlagaþinginu, gerólík hinum fyrri, og ég velti fyrir mér ef umræðan í þinginu og málsmeðferðin standa lengur hvort Framsóknarflokkurinn muni koma með fjórðu (Forseti hringir.) eða fimmtu (Forseti hringir.) útgáfuna af þessu stjórnlagaþingi. Mér finnst það (Forseti hringir.) dæmi um að málið (Forseti hringir.) er fullkomlega vanbúið (Forseti hringir.) og vanreifað og á eftir að vinna heilmikla vinnu þar (Forseti hringir.) áður en menn komast að niðurstöðu.