136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

umræða um dagskrármál.

[11:52]
Horfa

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Það er þó nokkuð um liðið síðan ég talaði undir liðnum um fundarstjórn. (Gripið fram í.) Það kom fyrir á árum áður, hv. þingmaður, en vegna orða hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur vil ég taka undir með hv. þingmanni að það er auðvitað afleitt þegar við ræðum jafnmikilvægt mál eins og við gerðum áðan, um störf þingsins, að ekki skuli vera hægt að ljúka því eins og raunveruleg hefð gerir ráð fyrir. Eins og við vitum hefur mikill bægslagangur verið og forseta er vandi á höndum þegar slíkt er.

Vegna orða nokkurra þingmanna verð ég að segja að ég hélt að komið hefði skýrt fram í mínu máli að menntamálanefnd verður kölluð til fundar þegar niðurstöður liggja fyrir og minnisblað frá menntamálaráðuneytinu tilbúið. Það liggur alveg ljóst fyrir að það mikilvæga mál sem við ræddum þar er í farvegi og það er beðið eftir tillögum og upplýsingum sem eru nauðsynlegar til að hægt sé að taka ákvarðanir. En ég tek undir það með hv. þingmönnum að það er afar mikilvægt að þær ákvarðanir liggi fyrir sem allra fyrst.