136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

fundarstjórn forseta.

[14:14]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég verð að segja að það er óþarfi af hv. þm. Sturlu Böðvarssyni að taka orð mín um gamla sjálftökuliðið til sín eða Sjálfstæðisflokksins. Menn hefðu betur hlustað á það sem ég sagði. Ég sagði að upplýst hefði verið að hópur manna sem ég kallaði gamla sjálftökuliðið hefði enn verið á vaktinni þegar upplýst var um, ekki bara leka heldur stórfellt flóð gjaldeyris út úr landinu. Þegar upplýst hafði verið um það (Gripið fram í.) að hér var það á vaktinni að raka til sín fé, gjaldeyrisforða þjóðarinnar, var borið inn í þingsali mál til að koma í veg fyrir þetta flæði út úr landinu en þá brast þrek Sjálfstæðisflokksins (Gripið fram í: Nú?) og þeir sátu hjá við afgreiðslu málsins. Þeir treystu sér ekki (Gripið fram í: … afbrigði.) til að styðja við aðra flokka í þinginu (Forseti hringir.) og stoppa upp í þetta gat. (Forseti hringir.) Það er það sem ég var að tala um.