136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:21]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég lít á síðustu orð hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar sem fyrirheit um þátttöku hans og þá eftir atvikum hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur og vonandi fleiri þingmanna stjórnarflokkanna í umræðunni. (Gripið fram í: Þau eru bæði búin að tala.) Þessir hv. þingmenn hafa báðir talað en síðan þeir gerðu það hafa fjölmargar efnismiklar og málefnalegar ræður verið fluttar og þeim sjónarmiðum sem þar komu fram hefur ekki verið svarað, ekki einu sinni beinum spurningum sem til þeirra var beint.

Hins vegar verð ég að vekja athygli hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar á því, ef hann má vera að, að ráðherrar hafa samkvæmt skýru ákvæði í stjórnarskránni heimild til að koma inn í umræðu hvenær sem þeir vilja. Það er skýrt. Þannig að það er engin fyrirstaða (Gripið fram í.) fyrir því að hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. fjármálaráðherra geti komið hér inn í umræðuna þegar þeim hentar. (Forseti hringir.)