136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:31]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég hef alltaf litið svo á að við værum hér á Alþingi til að fara yfir og ræða löggjöf, fara yfir forsendur og hlýða á rök með og á móti, vinna síðan í nefndum, kalla til umsagnaraðila og ræða málin síðan aftur á milli umræðna. Hér er ekkert óeðlilegt á ferðinni og ég er alveg sammála hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur að það voru gerðar miklar og mikilvægar breytingar á þingsköpum sem auðvelda okkur þetta starf. Ég vísa því algjörlega á bug að hér sé uppi eitthvert málþóf, við erum að ræða breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Ef gerð er athugasemd við það að við þingmenn bregðumst við gjörsamlega glórulausum tillögum um breytingar á stjórnarskránni, hverjir eiga þá að gera það?