136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:59]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna því sérstaklega að hæstv. forsætisráðherra er loksins stödd í þingsalnum. Við söknum hennar ekki alla jafna svona sáran en í þessari umræðu sem varðar okkar mikilvægasta lagabálk, grundvallarlögin um stjórnskipun Íslands, lög nr. 33/1944, þegar við ræðum mikilvægar breytingar sem eru til vansa fyrir alla flutningsmenn frumvarpsins, er þakkarvert að hæstv. forsætisráðherra skuli vera mætt í þingsali. Ég tek undir með hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur sem kom inn á það að maður geri þá ráð fyrir því að hæstv. forsætisráðherra verði viðstödd alla umræðuna sem eftir er, bæði það sem eftir lifir kvölds og líka á morgun þegar við höldum áfram að ræða breytingarnar fyrst hæstv. forsætisráðherra fór ekki utan á leiðtogafund NATO heldur sendi þangað staðgengil sinn.

Þetta hafa verið sérstakir dagar og sérstakur sólarhringur þar sem við höfum rætt um stjórnskipunina, stjórnarskrá okkar, þetta grundvallarplagg, þetta plagg sem hefur verið ákveðinn vegvísir okkar í gegnum árin. Það er dapurlegt að horfa upp á það og verða vitni að því þegar við öll höfum sammælst um að efla eigi virðingu Alþingis og styrkja Alþingi að þá sé lagt fram frumvarp um breyting á stjórnarskránni algerlega órætt milli flokka, algerlega í ósátt á Alþingi og það skuli vera lagt fram í því formi sem það er.

Í rauninni er róttækasta breytingin sem við ræðum hér sú sem verið er að gera á hlutverki Alþingis, þ.e. að svipta Alþingi því hlutverki að vera stjórnarskrárgjafi. Með fullri virðingu fyrir breytingunum sem við stóðum að árið 1991, 1995 og 1999 er þetta róttækasta breytingin sem við höfum gert og staðið frammi fyrir á hinu háa Alþingi þegar kemur að verksviði og hlutverki Alþingis. Það er verið að taka frá Alþingi hlutverk þess að samþykkja lög sem í dag eru lög nr. 33/1944. Það er ámælisvert. Þess vegna læðist eðlilega að manni sú tortryggni að þetta hafi bara verið yfirklór, yfirvarp þegar menn hafa rætt um það að styrkja Alþingi. Þegar til kastanna kemur var engin alvara á bak við þá hugmynd sem menn höfðu rætt hér nokkuð lengi.

Ég ætla að fara aðeins yfir vinnubrögðin og það hafa nokkrir gert. Síðan ætla ég að fara yfir auðlindaákvæðið, síðan í breytingu á 79. gr. stjórnarskrárinnar. Ég ætla að fara aðeins yfir þjóðaratkvæðið og fara síðan yfir og eyða mestum tíma í stjórnlagaþingið sem er í stórum dráttum algerlega órætt. Það er hægt að vísa í almenna söguskoðun á hlutverki stjórnlagaþings, það er hægt að vitna til annarra þjóðríkja varðandi stjórnlagaþing en það hefur aldrei komið til tals að ræða stjórnlagaþing hér á landi nema á síðustu þremur mánuðum. Og ekki nóg með það, fyrsta myndin sem okkur birtist í þinginu af stjórnlagaþingi er ekki sú sama og það stjórnlagaþing sem við ræðum hér í dag. Af hverju tökum við ekki lengri tíma í að ræða stjórnlagaþingið? Þá þróast það kannski í þá átt að verða nokkuð burðugt og gott þannig að allir flokkar geti sammælst um það og komið sér saman um að breyta stjórnarskránni í sátt. Það er svo mikilvægt, ég held að menn geri sér ekki grein fyrir því hve mikilvægt er að breyta stjórnarskránni í sátt.

Undir forustu Jóhönnu Sigurðardóttur, hæstv. forsætisráðherra, hefur það gerst að stjórnarskráin er orðin að átakaskjali, stjórnarskráin sjálf er orðin að átakaskjali, hún er orðin pólitískt skjal, pólitískt skiptimynt til að halda lengur í völdin. Framsókn verður að fá eina dúsuna, gefum henni stjórnlagaþing.

Við sjálfstæðismenn höfum verið gagnrýndir fyrir margt á undanförnum 18 árum. Mörg mistök hafa verið gerð en engu að síður hafa margir góðir hlutir verið gerðir, ekki síst þeir sem hafa leitt til þess að velferðarsamfélag okkar er gott, meginstoðir okkar eru sterkar og við erum stolt þjóð og öflug. Við beittum okkur fyrir því að breyta stjórnarskránni í þrígang á þessum tíma. Það er ábyrgðarhluti og ekki bara eitthvert hlutverk upp á punt að vera forsætisráðherra á Íslandi. Forsætisráðherra leiðir líka flokka saman. Það er ábyrgðarhluti að vera forsætisráðherra. Það er ábyrgðarhluti að vera forsætisráðherra gagnvart Alþingi en ekki síst gagnvart stjórnarskránni. Hvernig umgekkst Sjálfstæðisflokkurinn það vald? Í öll skiptin, 1991, 1995 þar sem stórum og mikilvægum hluta stjórnarskrárinnar var breytt, mjög víðtækt samkomulag náðist á milli flokkanna en ekki síður úti í samfélaginu. Haldnir voru fundir á vegum frjálsra félagasamtaka, menn gátu tjáð sig, rætt hlutina fram og til baka sem leiddi til þess að við náðum farsælli lendingu í breytingum á mannréttindakaflanum, og 1999 beittu sjálfstæðismenn sér sem forustuflokkur á þingi með forsætisráðherra í broddi fylkingar því að það er hann sem leiðir flokkana saman. Eins og hæstv. forsætisráðherra veit sem leiðir m.a. fundi forustumanna stjórnmálaflokkanna er það hlutverk hennar að leiða þessa hesta saman, þessa forustumenn lýðræðisaflanna á þingi, með það að markmiði að hugsa stærra en valdið sjálft. Að hugsa stærra er það að skora vel í næstu skoðanakönnunum, að hugsa stærra og meira en um eigið pólitískt líf þó að það pólitíska líf sé langt og nokkuð farsælt og hægt er að taka ofan fyrir mörgu. En þetta er, held ég, mesta og versta hneisa sem hæstv. forsætisráðherra hefur staðið frammi fyrir á sínum þingferli. Við erum að tala um þingmann sem hefur lengstu þingreynsluna á þingi og sá hinn sami þingmaður er 1. flutningsmaður frumvarps sem hefur í för með sér ekki bara réttaróvissuna út af auðlindaákvæðunum eða þjóðaratkvæðagreiðslunni, heldur er 1. flutningsmaður frumvarpsins síðast en ekki síst að berjast fyrir því að virðing og valdsvið þingsins verði skert, að hlutverk þingsins verði rýrt og stjórnarskrárhlutverk þess tekið af því. Mér finnst það hneisa, mér finnst það til vansa.

Hæstv. forsætisráðherra veit það vel að ég hef oft hælt henni og ég hef að mínu mati verið sanngjörn í minni gagnrýni en ég get ekki orða bundist þegar kemur að þessu mikilvæga máli. Að hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, fari í sögubækurnar fyrir að hafa í rauninni með ákveðnum hætti, með fulltingi Vinstri grænna og Frjálslynda flokksins en síðast en ekki síst með fulltingi Framsóknarflokksins ráðist á stjórnarskrána, ráðist á Alþingi til að geta setið lengur í sínum stól, ekki út af elsku, ekki út af ást á þessu plaggi heldur til þess að berja líka aðeins í leiðinni á sjálfstæðismönnum. Við kveinkum okkur ekkert undan því, við gerum það ekki en stjórnarskráin er stærri en Samfylkingin, stærri en Sjálfstæðisflokkurinn og það á ekki að umgangast stjórnarskrána með þeim hætti sem raun ber vitni. Það eru ekki bara við sjálfstæðismenn sem segjum þetta. Þetta er ekki bara eins og sumir hafa sagt, sjálfstæðismenn í málþófi. Það er ekkert sem heitir málþóf þegar stjórnarskráin er rædd, alls ekki. Og það er sárt, sársaukafullt og vont að upplifa það að þingmenn, hvort sem þeir eru með lögfræðimenntun í farteskinu eða reynslu í gegnum tíðina, ætli sér að berja þetta í gegn, sama hvað tautar og raular, sama hvað sjálfstæðismenn segja, sama hvað allir álitsgjafarnir sem sendu álit sín um þetta frumvarp segja. — Skítt með það. Við skulum breyta stjórnarskránni til að stinga m.a. dúsu upp í framsóknarmenn af því að þeir hafa ekki fengið neitt, við höfum ekki staðið við neitt af því sem við lofuðum þeim til þess að komast í ríkisstjórn, við höfum ekki staðið við efnahagslegar umbætur í þágu heimilanna, þetta var hvort sem er allt farið af stað. Við höfum ekki staðið við það að ljúka þinginu tiltölulega snemma. Nei, nei. Þá skulum við leyfa framsóknarmönnum að fá stjórnlagaþingið svo þeir verði ekki allt of pirraðir og leyfi okkur að vera í friði svona síðustu vikurnar fyrir kosningar þannig að við getum beitt ráðuneytunum sem kosningamaskínu fyrir okkur. — Þetta er tilgangurinn, það verður að segjast eins og er. Það eru ekki göfug markmið sem búa að baki því að koma hér með tillögu um stjórnlagaþingið.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði í gær í ræðu sinni að auðlindaákvæði frumvarpsins væri margrætt til margra ára, það væri útrætt og við skyldum bara afgreiða það með þessum hætti. Það er rétt. Það er þaulrætt, margrætt. Ég verð þó að leiðrétta mig, það er ekki algerlega rætt í þaula því að það eru miklar efasemdir um orðalagið, það er óskýrt. Ég kem að því á eftir. En hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði að þetta hefði verið rætt til margra ára. En hvað þá með stjórnlagaþingið?

Þegar við hæstv. forsætisráðherra sátum saman í ríkisstjórn var ekki minnst á stjórnlagaþing, ekki einu sinni. Þetta er bara einhver hugmynd sem dettur ofan úr skýjunum vegna þess að framsóknarmenn þurftu að fá eitthvað annað en 90% lánin, sem var náttúrlega alger hneisa að við skyldum samþykkja á sínum tíma og kom í bakið á okkur, en þetta er bara einhver dúsa upp í Framsókn. Þetta var aldrei rætt á milli stjórnarflokkanna í síðustu ríkisstjórn, aldrei.

Hvernig skyldi hafa verið staðið að framkvæmdinni í stjórnarskrárnefndinni sem starfaði fram að 2007 og menn vita að átti síðan að starfa seinni partinn á þessu kjörtímabili til að hún væri tilbúin í tæka tíð fyrir kosningarnar sem ellegar hefðu orðið 2011? Hvað gerði sú stjórnarskrárnefnd? Hún leitaði til fólksins, nokkrir að vinna, bað það um að koma með athugasemdir sem koma m.a. fram í skýrslu sem gefin var út um störf stjórnarskrárnefndarinnar og hvað gerist þegar maður les þá skýrslu? Þar er ekki eitt orð um stjórnlagaþing. Enginn úti í samfélaginu hafði áhuga á stjórnlagaþingi. Og það sára er að þegar maður les m.a. gögn frá ýmsum nefndarmönnum og fer yfir það sem þeir hafa bæði rætt og ritað, þá er alveg ljóst að sú nefnd átti ekki mjög mikla vinnu eftir, kannski nokkurra mánaða vinnu, 3–4 mánaða vinnu. Hefði ekki verið göfugra, hefði ekki verið mikilvægara að hefja sig yfir persónulega hagsmuni, hefja sig yfir flokkshagsmuni og hugsa um stjórnarskrána og segja: Gott og vel. Það hefur náðst samkomulag um hvernig breyta eigi stjórnarskránni, hvernig breyta eigi 79. gr. Klárum það mál og hefjum strax umræðu um breytingar á stjórnarskránni eftir kosningar á nýju þingi, ljúkum við stjórnarskrána í sátt þannig að hún verði ekki að pólitísku átakaskjali eins og nú er verið að gera. Þetta er vont fordæmi. Þetta er það vont fordæmi að ég vonast eindregið til þess að komið verði í veg fyrir það og menn sjái ljósið, ekki síst hæstv. forsætisráðherra.

Margir hafa sagt að tíminn sé allt of knappur, þetta hafi verið unnið á allt of skömmum tíma og ná þurfi víðtækri sátt um breytingar. Með leyfi forseta vitna ég í hv. þm. Kristrúnu Heimisdóttur sem sagði að almennt sé hún þeirrar skoðunar að það eigi að ná víðtækri sátt um breytingar á stjórnarskrá og það eigi ekki að hlaupa til breytinga á stjórnarskrá, það þurfi ígrundun o.s.frv. að eiga sér stað í aðdraganda þess að breyta stjórnarskránni.

Þetta sagði Kristrún Heimisdóttir, flokkssystir, lögfræðingur og víðlesin í stjórnarskránni, vel að sér einmitt í þessum fræðum og það er merkilegt að Samfylkingin hafi ekki leitað á náðir hennar, fengið álit hennar. Var það kannski út af því að álit hennar var ekki mönnum þóknanlegt? Er það kannski þannig hjá Samfylkingunni að ekki sé talað við þá sem eru ekki sammála forustunni? Getur það verið? Það kemur ekki neinum á óvart að svo sé, alla vega ekki að svo kunni að vera. Samfylkingin vill í sjálfu sér ekki kannast við neitt úr fortíð sinni, hefur ekki sjálf farið í róttæka endurskoðun á ræðum sínum, athöfnum sínum á umliðnu ári. Þá á ég ekki bara við sem stjórnandi og í ákveðnum ráðuneytum, félagsmálaráðuneytinu, ekki síst í viðskiptaráðuneytinu heldur líka hvernig hún hegðaði sér í stjórnarandstöðu í ákveðnum mikilvægum málum sem hefði verið svo mikilvægt að hafa samþykkt en m.a. stjórnarandstaðan kom í veg fyrir á sínum tíma. Ég ætla ekki að setja á langa ræðu varðandi þau mál en allir vita að ég er m.a. að vísa í fjölmiðlamál og eignarhald á fjölmiðlum. Samfylkingin kom í veg fyrir það mál, Vinstri grænir komu í veg fyrir það mál og það hefði verið miklu betra fyrir lýðræðislega umræðu, fyrir gegnsæi í fjölmiðlum ef það mál hefði farið í gegn, ekki síst hið síðara sem þverpólitísk samstaða náðist um en það er önnur saga.

Hvað segja fræðimenn eins og Sigurður Líndal? Ekki á að hlusta á hann af því að það hentar ekki núna og hvað þá Ragnhildi Helgadóttur sem telur, eins og reyndar Sigurður Líndal, að breyta þurfi stjórnarskránni en gera það frekar í smærri skömmtum, gera það með öðrum hætti en lagt er upp með.

Það hefur verið sagt, og ég hef svarað því, að við sjálfstæðismenn séum í málþófi út af stjórnarskránni. Það kann að vera að við höfum verið í málþófi út af einhverjum öðrum málum, ég ætla ekki að útiloka það þó að þær ræður sem fluttar hafa verið í öðrum málum hafi verið mjög efnisríkar. En þegar kemur að stjórnarskránni er ekkert til sem heitir málþóf, síst af öllu þegar verið er að skerða hlutverk Alþingis þegar kemur að því að vera stjórnarskrárráðgjafi.

Það hefur líka verið sagt: Þið eruð á móti því að færa valdið til þjóðarinnar. Það er rangt, það er beinlínis rangt. Með því að breyta 79. gr., eins og er í tillögu okkar, munum við á endanum færa valdið til fólksins þegar kemur að stjórnarskránni.

Það hefði verið svo miklu auðveldara upp á langtímahagsmuni Alþingis, upp á langtímahagsmuni þjóðarinnar, þegar kemur að stjórnarskránni, að forsætisráðherra hefði sýnt þá víðsýni og sýnt það umburðarlyndi, ekki gagnvart okkur sjálfstæðismönnum heldur gagnvart stjórnarskránni, að segja: Sammælumst um þær breytingar á stjórnarskránni sem fyrir liggja og við getum þá strax farið í aðrar breytingar. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra: Af hverju er ekki hægt að bíða með málið í sex vikur því að við erum bara að tala um sex vikur? Ef við hefðum samþykkt breytingar á 79. gr. og síðan gengið til kosninga 25. apríl þá hefði nýtt þing, sumarþing, getað farið í að ákveða það sem menn eru að ræða um og vísað málinu til þjóðarinnar.

Við viljum efla aðkomu þegnanna að ákvarðanatöku en það verður ekki gert hvernig sem er. Það verður ekki gert með því að umturna stjórnarskránni og traðka á henni, það gengur ekki. Það er því mikið umhugsunarefni, frú forseti, hvernig að þessu öllu hefur verið staðið. Ég ítreka aftur: Við skulum hafa hugfast hvernig við sjálfstæðismenn beittum okkur fyrir breytingum á stjórnarskránni. Það var í víðtækri sátt, það var í sátt við þjóðina og í sátt við þingið. Er það tilviljun að loksins þegar Samfylkingin, sem hefur barist með kjafti og klóm fyrir því að leiða ríkisstjórn, er komin með forustu í ríkisstjórn breytast vinnubrögðin? Hver hefur messíasarboðskapur Samfylkingarinnar verið á undanförnum árum? Það er að breyta um vinnubrögð. Er þetta breytingin á vinnubrögðunum? Þegar hún fær tækifæri til að beita völdunum beitir hún þeim með þeim hætti að hún traðkar á lýðræðinu, traðkar á stjórnarskránni. Ég segi enn og aftur: Mér er algerlega misboðið þegar kemur að þessu máli, algerlega misboðið. Það er ekki bara verið að umgangast stjórnarskrána af því skeytingarleysi sem raun ber vitni heldur er pólitískur hráskinnaleikur með í för.

Það er líka heppilegt fyrir stjórnarflokkana að við stöndum hér og setjum á langar ræður, við sjálfstæðismenn og hinir örfáu sem bera hagsmuni stjórnarskrárinnar og þingsins fyrir brjósti, því að það er svo heppilegt fyrir ríkisstjórnina að á meðan komast ekki önnur mál á dagskrá. Við höfum sagt, og ég ítreka það hér sem þingmaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, að við munum taka okkur út af mælendaskrá undir eins og mikilvæg atvinnumál komast á dagskrá. Þá gerum við hlé á þessari umræðu og hleypum öðrum málum að. Ég horfði því á sjónvarpsumræðurnar áðan í algerri forundran þegar kom að því að forsætisráðherra átti að svara því hvernig skapa ætti störfin.

Hvernig á að verja störfin? Það er einfalt. Byrjum á því að fara yfir hina eðlilegu dagskrá, yfir þau mál sem raunverulega skipta heimilin og fjölskyldurnar og fyrirtækin og atvinnulífið máli. Það hefur ekkert gerst á vakt þessarar ríkisstjórnar, ekki neitt gerst, ekkert nema það að málum hefur seinkað. Málin hafa farið nákvæmlega í þann farveg sem flokksbróðir hæstv. forsætisráðherra frá Svíþjóð, Göran Persson, spáði ef stjórnarkreppa yrði í kjölfarið á efnahagskreppu. Hann varaði eindregið við því. Hvað gerðist? Vaxtalækkunarferlið — vextir hafa einungis verið lækkaðir um 1%, sem er náttúrlega umhugsunarefni, allt að því hneisa — hefði hafist sex vikum fyrr ef þetta hefði ekki allt gerst.

Hvað dvelur orminn langa þegar kemur að endurreisn bankanna sem er lykilatriði fyrir fyrirtækin í landinu? Þetta má ekki ræða. Það er pólitísk hentistefna að segja: Höfum bara stjórnarskrána á dagskránni. Þá tala sjálfstæðismenn af því að þeir vilja verja stjórnarskrána. Gott og vel. En á meðan erum við ekki spurð óþægilegra spurninga. Á meðan þurfum við ekki að svara fyrir Helguvík. Á meðan þurfum við ekki að svara fyrir það af hverju málin koma ekki nægilega hratt frá okkur, hin raunverulegu mál sem skipta öllu. Svör og lausnir svo að fólk geti haldið áfram að búa í húsunum sínum að fyrirtækin geti farið að starfa. Allt er þetta, eins og við höfum margoft sagt, í boði Framsóknar, ekki bara þessi hneisa með stjórnlagaþingið eins og það er sett upp heldur ekki síður hitt að aðgerðarleysið af hálfu ríkisstjórnarinnar er líka í boði Framsóknar.

Ég horfði á sjónvarpsumræðurnar í kvöld og hlustaði á Sigmund Davíð Gunnlaugsson, nýjan og glæstan formann Framsóknarflokksins, dugmikinn mann. Þegar hann talaði um ríkisstjórnina, dró fram gagnrýni sína, þá hugsaði ég: Eru komnir tveir Framsóknarflokkar í landinu? Eða er formaðurinn ekki í neinum tengslum við þingmenn Framsóknarflokksins? Tala þingmenn Framsóknarflokksins ekkert við formanninn sinn? Með því máli sem við ræðum hér er Framsókn líka að koma í veg fyrir að við ræðum atvinnumál, að við hjálpum ríkisstjórninni með atvinnumálin, að við ræðum efnahagsmálin og við ræðum málefni fjölskyldnanna. Þessu ber Framsóknarflokkurinn líka ábyrgð á með fullri virðingu fyrir formanni Framsóknarflokksins sem ekkert þykist vilja vita af framgangi ríkisstjórnarinnar. Allt er þetta í þeirra boði.

Athyglisvert sjónarmið kom fram í ræðu hv. þm. Björns Bjarnasonar, sem hæstv. forsætisráðherra hlustaði ekki á, því að forsætisráðherra var ekki í salnum. Hv. þm. Björn Bjarnason vitnaði í mjög merkilegan pistil frá starfandi umboðsmanni Alþingis. Þar er m.a. komið inn á þessa hugmyndafræði og hugmyndir sem tengjast réttarríkinu og hvernig réttarríkinu geti staðið ógn af misvitrum stjórnmálamönnum, að mínu mati, sem nýta sér aðstæður, nýta sér ákveðið umrót í samfélaginu eins og verið er að gera núna og fara, vegna þeirra óvenjulegu kringumstæðna, í ákveðna vegferð sem er í rauninni hryllileg vegferð og það er að ráðast á stjórnarskrána. Aðstæðurnar eru svo óvenjulegar, kringumstæðurnar eru svo óvenjulegar, segja menn. Nei, þegar aðstæðurnar eru óvenjulegar þarf sterka stjórnmálamenn en ekki ósvífna sem freistast ekki til að fara í slíka vegferð, fara í það að breyta stjórnarskránni til að halda völdunum, m.a. af því að þeir telja það þjóna hagsmunum sínum. Vel má vera að afstaða þeirra flokka sem eru í ríkisstjórn — það á alla vega við um annan flokkinn og líka Framsóknarflokkurinn — ráðist að miklu leyti af skoðanakönnunum. Það hefur komið fram í ræðum hv. þingmanna, m.a. hv. þm. Birkis J. Jónssonar að þeir telja þjóðina vilja stjórnlagaþing. Gott og vel. Við sjálfstæðismenn erum líka reiðubúnir í stjórnlagaþing en það var ekkert við okkur talað. Það var ekkert við okkur rætt til þess að ná sátt um það hvernig við breytum stjórnarskránni.

Við viljum breyta stjórnarskránni. Það liggur ljóst fyrir. En við viljum ekki fórna stjórnarskránni á altari pólitískra hagsmuna eins og stjórnarflokkarnir eru að gera í boði Framsóknar. Það viljum við ekki gera. Það er alveg ljóst að við viljum breyta stjórnarskránni og hægt hefði verið að finna flöt á því, að stjórnlagaþing eða ákveðinn sérfræðihópur — það skiptir ekki máli hvað það heitir — hefði getað haldið áfram að vinna að ákveðnum breytingum á stjórnarskránni, hvort sem það snertir vald og valdmörk forseta Íslands, auðlindaákvæðið í stjórnarskrá eða ýmis önnur ákvæði. Við vorum og erum reiðubúin í þann leiðangur þannig að það sé skýrt sagt.

Menn hafa verið að ræða efnisatriði frumvarpsins. Sigurður Líndal segir að auðlindaákvæðið sé óljóst. Ragnar Árnason segir líka að þetta ákvæði sé með öllu óljóst. Hann og Birgir Þór Runólfsson segja, með leyfi forseta:

„Í ljósi ofangreindra athugasemda teljum við að með samþykkt ákvæðisins væri verið að veikja efnahag þjóðarinnar enn frekar. Það getur vart verið vilji löggjafans né þjóðarinnar.“

Samtök atvinnulífsins tala um hringlandahátt í lagasetningu, hann sé ekki til þess fallinn að endurvekja traust umheimsins á íslensku efnahagslífi. Meðan eitt helsta markmið ríkisstjórnarinnar er að stuðla að efnahagslegri uppbyggingu samfélagsins kemur ríkisstjórnin, forsætisráðherra í broddi fylkingar, fram með frumvarp til breytinga á stjórnarskránni sem í rauninni veikir tiltrú á okkur á hinum alþjóðlega vettvangi, veikir tiltrú fólks á innviðum þess kerfis sem við búum við. Ég vil, með leyfi forseta, vitna í Sigurð Líndal hvað varðar þjóðareignina:

„Ég tel að skoða þyrfti 1. gr. frumvarpsins betur vegna óljósrar merkingar orða og hugtaka sem þar eru notuð. Í orðið þjóðareign er ekki hægt að leggja hefðbundna merkingu eignarréttarins þótt þess hafi margsinnis gætt í umræðu.“

Enn og aftur er verið að blanda fullveldisréttinum saman við eignarréttinn. Þetta er óljóst og það er hægt að gera þetta mun betur. Það er hægt að vinna að þessu og það höfum við verið reiðubúin til að gera.

Það er líka alveg ljóst — talandi um asann sem hefur verið í þessu máli, ekki ætla ég að hafa mörg orð um það, það hefur ítrekað komið fram. Ég mætti á einn fund í sérnefnd um stjórnarskrármálið og það lá alveg ljóst fyrir að það átti að ýta þessu máli í gegn, sama hvað tautar og raular, sama hvað gestirnir höfðu að segja, það skipti engu máli. Þetta voru bara formlegheit. Þetta var bara „pro forma“, frú forseti, að fá gesti á sinn fund, ekkert hlustað, bara tekið á móti plöggum, þau ekki lesin og ekki á þau hlustað.

Karl Axelsson benti m.a. á mjög óljósa þýðingu þessa ákvæðis, spurði m.a. athyglisverðra spurninga um þjóðlendur, mál sem hefur verið mjög umdeilt til margra ára. Falla þjóðlendurnar undir 1. gr. eða falla þær undir einkaeignarrétt? Hann taldi líklegra að þær féllu undir þjóðlendurnar, féllu undir einkaeignarréttinn því að þær væru háðar einkaeignarrétti ríkisins í þessu þannig að þjóðlendurnar mundu að öllum líkindum ekki falla undir orðið þjóðareign í þessu.

Arthur Bogason frá Landssambandi smábátaeigenda talaði um og kvartaði undan skömmum tíma, hann hefði vart tíma til að boða stjórn sína saman. Síðast en ekki síst vil ég draga fram misjafna nálgun hæstv. forsætisráðherra og hv. þm. Helga Hjörvars á málinu. Hæstv. forsætisráðherra sagði að mig minnir í ræðu sinni um skýrslu ríkisstjórnarinnar að þessum stjórnarskrárbreytingum væri ekki ætlað að hrófla við núgildandi rétti manna. Í rauninni breyttu þessar breytingar engu um núverandi stöðu. Þetta sagði hæstv. forsætisráðherra.

Hver kemur svo nokkrum dögum síðar og trillar hér upp í pontu, upp í ræðustól Alþingis? Það er hv. þm. Helgi Hjörvar sem segir að þetta sé grundvallarbreyting varðandi fiskveiðistjórnarkerfið. Ég vil gjarnan fá eina skoðun frá hæstv. ríkisstjórn varðandi þetta mál því að enn og aftur undirstrikar þetta það að frumvarpið gerir ekkert annað en að auka á réttaróvissu. Það er ekki okkar hlutverk hér að auka réttaróvissu og færa löggjafarvaldið inn í dómsalina, það er nóg komið af slíku. Er ekki verið að tala um virðingu þingsins? Eigum við ekki að hafa löggjafarvaldið hér inni og segja skýrt hvað við meinum þegar við setjum fram breytingar á stjórnarskrá eða annarri löggjöf? Það verður að vera skýrt. Þetta er ekkert annað en hringlandaháttur eins og kom fram í einni umsögninni varðandi lagasetninguna.

Ég vil líka vitna í það sem Þorsteinn Pálsson, sem er margreyndur á þessu sviði, sagði m.a. varðandi auðlindaákvæðið, með leyfi forseta:

„Eitt helsta atriðið við stjórnarskrársmíð er að forðast óljósar stefnuyfirlýsingar sem dómstólar verða síðar meir að gefa efnislegt innihald. Auðlindaákvæðið í tillögu forsætisráðherra er þessu marki brennt. Með loðnu orðalagi og óskýrri hugtakanotkun er vald flutt frá lýðræðislega kjörnum fulltrúum fólksins inn í dómsalina. Það er öfugþróun sem veikir löggjafarvaldið.“

Erum við ekki að reyna að styrkja þingið? Það er ekki bara það að stjórnlagaþingið sé að rýra valdmörk þingsins, rýra verksvið okkar hér á þingi, auðlindaákvæðið í stjórnarskrárfrumvarpinu gerir það líka.

Áfram heldur Þorsteinn Pálsson:

„Fram til þessa hefur Samfylkingin gert kröfu til þess að stjórnarskráin hafi að geyma skyldu til að skattleggja auðlindanýtingu. Þetta á rætur í áliti auðlindanefndar frá því í byrjun aldarinnar. Nú söðlar forsætisráðherra um og fellur frá þessari kröfu. Ástæða er til að fagna þeim umskiptum. Líklega hefði stjórnarskrárnefnd lokið störfum á nokkrum mánuðum fyrir þremur árum ef Samfylkingin hefði þá þegar verið tilbúin til þessarar stefnubreytingar. Hún er einnig skýr vísbending um að Alþingi geti á stuttum tíma náð saman um heildstæðar breytingar á stjórnarskránni ef ríkisstjórnin er reiðubúin til að gefa þessu þingi eða því næsta eðlilegt svigrúm til málefnalegrar umfjöllunar.“

Eðlilegt svigrúm, það er það sem við sjálfstæðismenn höfum beðið um. Breytum stjórnarskránni, breytum 79. gr. stjórnarskrárinnar, sem er risaskref vel að merkja. Það er í rauninni sú grein sem hefur staðið í vegi fyrir því að ákveðnum breytingum hefur ekki verið hægt að fylgja jafnhratt úr hlaði með víðtækri sátt og raun ber vitni af því að það hefur alltaf þurft kosningar á milli. Þetta er því stórt skref og mikið og þingið hefði að öllu jöfnu, ef þetta ákvæði hefði verið samþykkt hefðum við getað verið farin af stað í það að breyta stjórnarskránni undir eðlilegum formerkjum, þ.e. í víðtækri sátt, strax að nokkrum vikum liðnum. Þetta vill ekki Samfylkingin, þetta vilja ekki Vinstri grænir, þetta vilja ekki framsóknarmenn eða frjálslyndir, þeir vilja breyta stjórnarskránni í pólitíska skiptimynt, í pólitískt átakaskjal og það er sorglegt.

Stjórnarskráin á að lifa okkur öll hér inni. Fyrst hv. þm. Álfheiður Ingadóttir er komin í salinn þá eiga allir að vita það að stjórnarskráin er merkilegri en við öll hér inni og það á ekki að hafa hana að einhverri skiptimynt. Það er sorglegt að upplifa það að fólk skuli fylkja sér í kringum slíka leið.

Breyting á 79. gr. hefði verið mjög mikilvægt og stórt skref. Við hefðum á endanum alltaf farið með valdið til þjóðarinnar, breytt stjórnarskránni í sátt hér á þingi og farið síðan með valdið til þjóðarinnar. Það er það sem við viljum.

Stjórnlagaþingið, eins og það er sett fram, er náttúrlega algjörlega kostulegt. Eins og margoft hefur komið fram er þetta þriðja útgáfan og ég spyr: Hvernig gæti þetta þróast ef við sitjum hér kannski fram til 24. apríl, hvaða útgáfu ræðum við þá? Erum við þá að ræða sjöttu eða sjöundu útgáfuna af … (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Eins og hv. þingmaður hefur tekið eftir hefur klukkan verið að hlaupa fram og til baka. Nú sýnir hún að það séu átta mínútur eftir, en það eru, hv. þingmaður, ekki nema svona fimm mínútur eftir.)

Ég þakka fyrir þessar upplýsingar.

Stjórnlagaþingið er því greinilega ekki fullmótað. Fyrst eru settar fram einhverjar tillögur um að það kunni hugsanlega að kosta 300 milljónir. Síðan er ljóst eftir útreikninga fjármálaráðuneytisins að það hleypur á 2,2 milljörðum, það muni kosta hátt í þrjá milljarða. Þá fer kuldahrollur um framsóknarmenn og þeir átta sig á að þetta er ekki alveg nógu vel hugsað og reyna að setja fram stjórnlagaþing, aðra eða þriðju útgáfuna, ég man ekki hvaða útgáfa það var, og reyna að gera það aðeins rýrara í roðinu þannig að það kosti ekki nema um hálfan milljarð. Enginn hefur enn þá svarað mér því hvaðan eigi að taka þá peninga. Það hefur almennt enginn á vegum ríkisstjórnarinnar svarað okkur sjálfstæðismönnum hvar menn ætli að bera niður varðandi hagræðingu í ríkisútgjöldum. Eða ætlar forsætisráðherra t.d. að leyfa félagsmálaráðherra að taka ekki þátt í hagræðingu á ríkisútgjöldum eins og hæstv. forsætisráðherra gerði á sínum tíma sem félags- og tryggingamálaráðherra? Það verða allir að bera þá ábyrgð að hagræða í ríkisrekstri, allir, það getur enginn hlaupist undan merkjum.

Það er ljóst að stefna okkar sjálfstæðismanna er sú að við teljum að við eigum að skoða allar leiðir áður en við setjum nýjar álögur eða meiri álögur á fólkið í landinu, fyrirtækin í landinu, og við viljum alls ekki nýja skatta undir nýjum formerkjum. En þetta fáum við ekki að ræða af því að við erum að ræða stjórnarskrána. Við fáum ekki að ræða atvinnumálin, við fáum ekki að ræða ríkisfjármálin. Við fáum ekki að ræða verðtrygginguna nema kannski í einhverri hálftíma utandagskrárumræðu. Við fáum ekkert að ræða hér. Við viljum gjarnan ræða stjórnarskrána en við verðum í dag að forgangsraða í þágu atvinnulífsins og heimilanna. Það vill ríkisstjórnin sem greinilega hefur dagskrárvaldið á þinginu ekki gera og forseti þingsins hefur ekki roð í framkvæmdarvaldið og gerir bara eins og honum er sagt að gera.

Það hefur margt kostulegt verið sagt um stjórnlagaþingið og ég vil gjarnan vitna í það sem m.a. hv. þm. Kristrún Heimisdóttir hefur sagt, með leyfi forseta:

„Það er verið að tala um að þetta sé kosning, þannig að þetta er þá fulltrúalýðræði, eins konar, sem á að gilda þannig að menn eiga bara að treysta vini, svo ég noti þetta orðalag sem menn eru með þarna í veflýðræðinu og minnir dálítið mikið á fræga spurningaþætti þar sem menn eru beðnir um að hringja í vin ef þeir hafa ekki svar, en þetta snýst ekkert um að treysta vini. Sko, ef Íslendingar hafa lært eitthvað,“ segir Kristrún Heimisdóttir, „þá þurfa þeir að byggja upp eigin dómgreind en ekki treysta einhverjum öðrum. Þetta snýst um það og þess vegna er þessi menntun og uppbygging svona mikilvæg.“

Síðan heldur hún áfram:

„Sko, kosningin verður þannig“ — þ.e. til stjórnlagaþingsins — „að þetta verði þá fulltrúar einhverra hópa, einhverra hagsmunahópa, einhverra sem eru talsmenn einhverra tiltekinna hugmynda sem maður gæti óttast að yrði svona frekar einfaldað vegna þess að þetta væri svona kosningabarátta sem byggðist með hefðbundnum hætti á slagorðum og einhverjum einföldunum, einföldum línum. Sem sagt, við erum, í staðinn fyrir að endurnýja stjórnmálahefðina þá óttast ég að við séum að falla í þá gryfju að beita neikvæðum eiginleikum stjórnmálahefðar okkar, eða veikleikum, til að skapa eitthvað sem ég óttast mjög að muni ekki skila miklum breytingum eða árangri, þ.e. þetta stjórnlagaþing ef það verður gert með þessum hætti.“

Þetta segir flokkssystir hæstv. forsætisráðherra. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvaða álit hún hafi á skoðun Kristrúnar Heimisdóttur, sem er lögfræðingur og er mjög víðlesin í þessum fræðum.

Ég vil einnig spyrja hæstv. forsætisráðherra hvaða skoðun hún hafi á ummælum Ragnhildar Helgadóttur sem segir m.a., með leyfi forseta: (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Hálf mínúta eftir.)

„Ævar Kjartansson segir við Ragnhildi Helgadóttur: Þér finnst að við ættum að breyta stjórnarskránni hægt og rólega, lenda ekki í því í einhverri panik, af því að við erum búin að klúðra svo mörgu að það er nú best að rjúka í að reyna að draga sjálfan sig upp á hárinu með því að breyta, efna til stjórnlagaþings sem er í raun ekkert sérstakt, neitt svona, í ljósi nýliðinnar þróunar. Það er náttúrlega engin ástæða til að halda að allt í einu rísi upp 41 snillingur á Íslandi.“

Ragnhildur Helgadóttir svarar:

„Þetta ber vott um að það sé verið að henda barninu út með baðvatninu. Bara baðvatnið er skítugt og þá hendum við því — og barninu, þ.e. stjórnarskránni, bara með.“

Það eru ekki bara við sjálfstæðismenn — (Forseti hringir.) því að ég veit að forsætisráðherra hlustar ekkert á okkur sjálfstæðismenn en ég bið hana að hlusta á þá málsmetandi aðila sem hafa verið að tjá sig um þessar breytingar á stjórnarskránni, ég bið hana að hlusta á þá aðila (Forseti hringir.) og hugsa um að stjórnarskráin er miklu mikilvægari en núverandi ríkisstjórn, en núverandi stjórnarandstaða. (Forseti hringir.) Stjórnarskráin er miklu mikilvægari en svo að við séum að hafa hana að einhverjum leiksoppi á borði stjórnmálanna.