136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:47]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður heldur því fram að sú sem hér stendur hlusti ekki á þjóðina. Kannski er það nákvæmlega það sem við erum að gera hér, sú sem hér stendur og við í meiri hlutanum, þessir fjórir flokkar sem standa að þessari stjórnarskrárbreytingu. Við erum að hlusta á þjóðina. (PHB: Hvar er …?) Hún hefur margoft kallað eftir því að fá lýðræðisumbætur í formi þess (Gripið fram í: Þjóðaratkvæðagreiðslu?) að hér verði sett ákvæði í stjórnarskrána sem heimili þjóðinni að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. (PHB: Það eru allir sammála því.) (Gripið fram í: Nei, ekki Björn Bjarnason.) Er Sjálfstæðisflokkurinn sammála því? Það er þá nýbreytni. Hve oft hefur ekki verið kallað eftir því að auðlindirnar séu í þjóðareign? Það hefur margítrekað verið fjallað um það í stjórnarskrárnefndum sem hafa setið lengi að störfum (Gripið fram í.) án þess að ná niðurstöðu. Það er alveg hárrétt sem segir í nefndaráliti meiri hlutans að margar tilraunir hafa verið gerðar frá lýðveldisstofnun til að breyta stjórnarskránni með takmörkuðum árangri. (Gripið fram í: … hvert árið til að gera það.) Í þeim ákvæðum sem hér eru sett fram höfum við komið til móts við Sjálfstæðisflokkinn, það er ekki hægt að neita því. Við getum farið yfir það lið fyrir lið. (Gripið fram í.) Auðlindaákvæðinu var breytt í nefndinni. Líka var því ákvæði er varðar þjóðaratkvæðagreiðsluna breytt til að koma til móts við Sjálfstæðisflokkinn og stjórnlagaþinginu var breytt til að koma til móts við Sjálfstæðisflokkinn.

Svo er talað um að við hlustum ekki neitt á það sem Sjálfstæðisflokkurinn segir í þessu efni. Meiri hluti nefndarinnar hefur sannarlega gert það. En ég tók eftir því að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir reyndi í engu að afsanna það sem ég sagði, hún fór með dylgjur í mörgum efnum sem henni er ekki samboðið að gera. Ég virði Þorgerði Katrínu um margt fyrir störf hennar sem þingmaður og ráðherra gegnum tíðina. Hún hefur oft og iðulega verið málefnaleg en hún var á margan hátt (Forseti hringir.) ekki málefnaleg í ræðu sinni áðan.