136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:50]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Eftir að hafa heyrt hæstv. forsætisráðherra í stuttu andsvari er alveg ljóst að hæstv. forsætisráðherra verður að vera við umræðuna. Hæstv. forsætisráðherra verður á morgun að vera við alla umræðuna þannig að hæstv. forsætisráðherra fái þar sjónarmið okkar sjálfstæðismanna sem annarra þegar þeir tjá sig um breytingar á stjórnarskránni.

Varðandi dylgjur, ég sagði sérstaklega í ræðu minni að það væri margt sem ég virti í störfum hæstv. forsætisráðherra í gegnum tíðina sem þingmanns en mér væri algerlega misboðið hvernig þingreyndasti maðurinn okkar setti mál sitt fram. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr er verið að traðka á stjórnarskránni. Það er verið að svipta Alþingi því hlutverki að vera stjórnarskrárgjafi. Af hverju var ekki einu sinni rætt um þetta í síðustu ríkisstjórn? Af hverju minntist ekki einn Íslendingur í umsögnum sínum til stjórnarskrárnefndar sem var starfandi í nokkur ár á stjórnlagaþing? Þetta er einhver tækifærishugmynd sem sprettur núna á síðustu vikum til að halda framsóknarmönnum við efnið. Segjum hlutina eins og þeir eru. Þetta er ekkert annað en dúsa upp í Framsókn. Við skulum koma með ykkur í það að auðvelda breytingar á stjórnarskrá þannig að það verði til farsældar fyrir þjóðina. Við skulum efna til stjórnlagaþings sem verður ráðgefandi, tekur ekki hlutverkið af Alþingi. Fáum þjóðina með okkur í lið. Við erum öll sammála um þetta. Gerum þetta saman, notum ekki stjórnarskrána sem eitthvert pólitískt hentugleikaplagg. Gerum þetta saman, hæstv. forsætisráðherra. Ég skora á þig að gera það.