136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:57]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek undir kröfu þeirra sjálfstæðismanna sem hér hafa talað, sérstaklega sem hv. þm. Sturla Böðvarsson benti á. Það er greinilegt og kom raunar fram í andsvari hæstv. forsætisráðherra eftir ræðu mína í hádegisbilinu að hún hafði ekki kynnt sér málflutninginn. Þar hélt hún fram því sama og hér hefur komið fram, að breytingartillögur meiri hlutans væru viðbrögð við athugasemd Sjálfstæðisflokksins. Ég benti henni þá á að kynna sér það sem þar kom fram en það virðist sem hún hafi ekki haft tóm til þess í dag enda kannski að sinna öðru. Ég benti henni á að þetta hefðu ekki verið viðbrögð við okkar athugasemdum. Þetta voru viðbrögð við lélegri vinnu og þeirri hrákasmíð sem frumvarpið er.

Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt um að hæstv. forsætisráðherra fái tíma (Forseti hringir.) til að kíkja á það sem við höfum verið að segja.