136. löggjafarþing — 125. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:52]
Horfa

Herdís Þórðardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir þá greinargóðu skýringu sem hún gaf á stjórnlagaþinginu sem þau ætla sér væntanlega að koma í gegn. Eins og ég gat um áðan erum við að fá alltaf nýjar hugmyndir. Komið hafa fram margar hugmyndir, það er verið að breyta þessu og hinu, það er a.m.k. þrisvar búið að breyta.

Mér fannst mjög fróðlegt að heyra að þið takið þá tillit til sjálfstæðismanna. Mér hefur ekki fundist það hér í umræðunni að það hafi verið tekið tillit til eins eða neins sem við höfum haft fram að færa. Það virðist ekki skipta nokkru máli ef við höfum komið með einhverjar breytingartillögur eða eitthvað slíkt. Ekki vorum við höfð með í ráðum þegar þessi þriggja manna nefnd var sett á laggirnar um mánaðamótin janúar/febrúar. Þá vorum við ekki spurð álits hvort við værum til í að vera með, það var bara gengið áfram og farið í þá vinnu. Það er ágætt ef þið hugsið um að spara fé, að ekki verði bruðlað í þessu stjórnlagaþingi, ég segi bara ekki annað en það.

Ég ætla ekki, hæstv. forseti, að tjá mig í sambandi við þetta eina ár sem hv. þingmaður gat um að yrði frá 2010 til 2011. Ég segi það enn og aftur að ég fagna því ef minni hlutinn fær einhverju ráðið hér eins og málunum er komið. Mér hefur ekki virst það hingað til.