136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

fundur í umhverfisnefnd – frumvarp um stjórnarskipunarlög – röð mála á dagskrá.

[10:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vildi, af því að hæstv. fjármálaráðherra er kominn í þennan gírinn, rifja upp nokkur ummæli sem voru flutt hér af hv. þingmönnum sem núna eru hæstv. ráðherrar.

Hæstv. ráðherra Ögmundur Jónasson sagði árið 2007:

„Stjórnarskránni á ekki að breyta í þeim tilgangi að afla kjörfylgis í aðdraganda kosninga. Það er grundvallaratriði að um stjórnskipan þjóðarinnar ríki stöðugleiki, sátt og festa.“

Hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson sagði:

„Stjórnarskráin er grunnlög lýðveldisins og það er mikilvægt að um þau sé fjallað af mikilli ábyrgð og það sé reynt að ná sem breiðastri og víðtækastri samstöðu um þau mál.“

Hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon sagði:

„En ég bara trúi því ekki að menn ætli að bera það á borð að örvæntingin í stjórnarherbúðunum, sem myndaðist á fáeinum sólarhringum fyrir og um flokksþing Framsóknarflokksins, sé gjaldgeng ástæða til þess að standa svona að málum, að umgangast stjórnarskrá og vandasöm viðfangsefni þar með léttúð af þessu tagi. Ég læt segja mér það þrisvar að menn ætli í raun og veru að gangast við því að slíkt sé verjanlegt og réttlætanlegt og fara þá leið allar götur til enda.“ (Forseti hringir.)

Ég held að það sé ágætt að hæstv. ráðherrar (Forseti hringir.) rifji þetta upp núna.