136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:19]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs sérstaklega vegna orða hv. þm. Marðar Árnasonar. Ég bíð eftir því að fá að komast að til að ræða um stjórnarskrána og fjalla m.a. um það ákvæði sem hv. þm. Mörður Árnason talaði um, þ.e. þjóðareign á auðlindum hafsins og öðrum auðlindum. Mér finnst skipta miklu máli með hvaða hætti og hvernig þetta verður afgreitt frá Alþingi, þannig að Alþingi sé sómi að.

Ég hins vegar stend fast á því að berjast af öllu afli gegn því að hér verði stjórnskipuleg ringulreið með því að samþykkt verði frá Alþingi það ákvæði sem hér liggur fyrir um stjórnlagaþing. Ég tel það skyldu mína sem þingmanns á Alþingi Íslendinga, á meðan ég er þar, að standa vörð um hagsmuni Alþingis, þjóðarinnar og stjórnarskrárinnar.

Ég sé ekki annað en að eitt það versta sem við getum gert í þessari stöðu sé að samþykkja það ákvæði sem hér liggur fyrir um stjórnlagaþing. (Forseti hringir.) Þar stendur hnífurinn í kúnni hvað mig varðar og það hefur ekkert með málþóf (Forseti hringir.) að gera heldur eðlilega (Forseti hringir.) málsvörn fyrir stjórnarskrána.