136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:35]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég get skilið að forseti vilji taka sér nokkurn tíma til að taka ákvörðun í þessu máli en ég legg hér til að til að flýta hér öllum þingstörfum verði nú þegar gert hlé á þingfundi þannig að hann geti þá ráðfært sig við formenn þingflokkanna þannig að hægt sé að ná fram góðri sátt hér í þinginu og við getum — og það er vilji okkar sjálfstæðismanna — afgreitt nokkur þau mál sem skipta verulegu máli, t.d. samning um Helguvík og fleiri mál sem eru mjög brýn og aðkallandi fyrir þjóðina akkúrat þessa dagana og síðan höldum við áfram síðar í dag að ræða stjórnarskrána. Mér er það gjörsamlega óskiljanlegt hvers vegna minnihlutastjórnin þráast svona við með þessum hætti við að hleypa hér inn málum sem skipta svona miklu máli fyrir þjóðina. Því ekki að sýna bara ábyrgð í störfum sínum, taka á þessum málum og halda svo áfram að ræða stjórnarskrána?

Þetta er mjög sanngjörn krafa okkar sjálfstæðismanna, krafa sem við gerum vegna þeirra aðstæðna sem eru uppi í þjóðfélaginu, vegna þess að brýn þörf er á því að þessi mál fái umfjöllun og afgreiðslu, jafnbrýnt og við ræðum hér stjórnarskrána þannig að sómi sé að því fyrir Alþingi Íslendinga. (Forseti hringir.) Þetta skiptir allt miklu máli.