136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[11:41]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Sá darraðardans sem á sér stað í sölum Alþingis er mjög sérstæður. Hann byggist á því að ríkisstjórnarflokkarnir, Samfylkingin og Vinstri grænir, vilja ekki hleypa mönnum til kosningabaráttu, vilja ekki að þjóðinni sé kynnt það sem menn hafa fram að færa til næstu missira og ára. Það segir líka svolítið, virðulegi forseti, að hv. þingkonur Framsóknarflokksins pískra hér og hlæja og tísta, ekki þó eins og lóan blessuð sem er komin til landsins.

Þetta er nefnilega ekki leikur. (Gripið fram í: Er þetta ekki leikur?) Þetta er darraðardans með stjórnarskrá Íslands og rétt fólksins í landinu til að fá upplýsingar fyrir komandi kosningar. (Gripið fram í: Flokksræðið eða lýðræðið.) Það er ekki í þágu ríkisstjórnarflokkanna að hafa eðlilega kosningabaráttu í landinu, virðulegi forseti. (Gripið fram í: Hverjir eru að koma í veg fyrir það?) Það er mjög sérstakt mál. Það er einsdæmi eins og staðan er í dag. Það er til háborinnar skammar fyrir ríkisstjórn Íslands og Alþingi Íslendinga að ætla sér í stöðu eins og er í landinu í dag að hundsa rétt fólksins í landinu til að fá eðlilega kynningu, eðlilegar umræður, eðlileg skoðanaskipti um þau mál sem efst eru á baugi og brýnust til lausnar.

Tveir stjórnmálaflokkar eru í sjálfheldu, ríkisstjórnarflokkarnir eru í þeirri stöðu í dag. Það eru Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn. Samfylkingin og Vinstri grænir njóta þess að halda þessari sjálfheldu við lýði vegna þess að stjórnarflokkarnir tveir vilja ekki að fólkið í landinu fái upplýsingar eða rökræður um stöðu mála. Þeir hlæja bak við tjöldin hérna, þeir hlæja að niðurfellingunni. Þeir hlæja að fólkinu í landinu af því að þeir komast upp með það að losna við kosningabaráttu fyrir opnum tjöldum.

Stjórnarskráin sjálf er höfð að leiksoppi í þessu máli. Auðvitað eiga þingmenn fyrst og síðast að verja stjórnarskrá Íslands, fyrst og síðast því að hún er ankerið sem við eigum að byggja á. Hún er ankeri sem er ekki rekankeri. Hún er ankeri sem á að halda fast og vera styrkur fyrir samfélag okkar og þau gildi sem við viljum byggja á. (GMJ: Byggjum ekki á … akkeri.) Ég gef ekkert fyrir ummæli hv. þm. Grétars Mars Jónssonar sem þarf ekki stærra ankeri en julla, áralaus julla. [Hlátur í þingsal.]

Framsóknarflokkurinn kom með hugmynd um stjórnlagaþing sem átti að ganga yfir rétt og skyldur Alþingis. (Gripið fram í.) Alþingi Íslendinga er kjörið af fólkinu í landinu, hv. þingmaður. Það þýðir ekki að tala hérna eins og einhver nýgræðingur eða erlendur skiptinemi (Gripið fram í.) á fyrsta degi á Íslandi. Það er líka til háborinnar skammar. Alþingi Íslendinga er kjörið af fólkinu í landinu. (Gripið fram í: Líka stjórnlagaþingið.) Stjórnlagaþingið hefur sem betur fer ekki verið afgreitt til þjóðaratkvæðis um þau efni. (Gripið fram í: Það hefur …) Hvaða stjórnendur setja tvo skipstjóra í brúna? Eru dæmi þess á Norðurlöndum, hv. þingmaður? Engin. Það er einn skipstjóri í brúnni. Hann verður að standa ábyrgur fyrir því sem hann gerir. Sama er með Alþingi Íslendinga. Það á að standa ábyrgt gagnvart íslensku þjóðinni fyrir því sem það gerir og sinna því hlutverki sem því er ætlað.

Umræðupólitík er skemmtileg partíhugmynd en umræðupólitík gildir ekki um stjórnarskrána þar sem hún er höfð að leiksoppi. Það er ótrúlegt að verða vitni að því í fyrsta skipti hvernig ríkisstjórn Íslands spilar bak við tjöldin til að halda fólki, halda þingmönnum, halda stjórnmálamönnum þjóðarinnar, frá eðlilegri kosningabaráttu um allt land. Það er með ólíkindum hvaða dónaskap og valdníðslu ríkisstjórn Íslands sýnir í dag. Skömminni er skellt á Framsóknarflokkinn. Skömminni er skellt á Sjálfstæðisflokkinn, að sjálfstæðismenn standi hér í rökræðum og orðhnippingum. Sjálfstæðismenn hafa valið þann kost að verja rétt Alþingis, verja skyldu Alþingis til að vinna þau verk sem það á að vinna.

Hugmyndir að stjórnlagaþingi tíðkast helst í Mið-Aríkuríkjum þar sem lítil þróun hefur átt sér stað, gamlir siðir sem ganga út frá geðþóttaákvörðunum fyrirmanna. Þetta nýtir ríkisstjórn Íslands sér, Vinstri grænir og Samfylking, með því að etja saman mönnum í þinginu, vera á meðan í skjóli til að losna við kosningabaráttu, til að víkja sér undan þeirri skyldu að fólkið í landinu fái eðlilega kynningu og umræðu.

Virðulegi forseti. Er það ekki hlutverk forseta Alþingis að taka á svona deilu, horfa beint í kjarna málsins í stað þess að dansa í kringum staðreyndir, dansa í kringum þær eins og köttur í kringum heitan graut? Það ætti að vera metnaður og hlýtur að vera metnaður forseta Alþingis að hér séu stunduð ásættanleg vinnubrögð, einhver leið að sáttamarki þótt ekki sé víst að allir kunni til hins ýtrasta að vera sáttir. Það fer ekkert á milli mála að stjórnarflokkarnir trúa því í stöðunni að sá byr sem þeir hafa meðal þjóðarinnar, skoðanakannanir sem eru aldrei nema fugl í skógi en ekki fugl í hendi, fleyti þeim í gegnum kosningarnar án þess að í landinu fari fram kosningabarátta, eðlileg kynning á málefnum sem þarf að vinna að á næstu missirum og árum. Hvaða vinnubrögð eru þetta, virðulegi forseti? Þetta eru ný vinnubrögð við stjórn landsins sem koma ekkert við rétti, sanngirni, upplýsingu, rökræðum, niðurstöðu, málamiðlun og síst af öllu árangri. Þessi vinnubrögð sem hleypa öllu í bál og brand ber að harma og fordæma.

Hvaða ríkisstjórn sem hugsar um fólkið í landinu stendur í vegi fyrir því að landsmenn fái eðlilega kynningu stjórnmálamanna hvar sem er á landinu? Það er ekki ríkisstjórn, það er stjórnleysi. Þetta er anarkismi af verstu sort, virðulegi forseti.

Stjórnarskrá Íslands byggir ekki á löngum texta. Hún rúmast í litlum bæklingi, 16 síðna bæklingi, litlu kveri. Þar má ugglaust alltaf breyta og bæta en það skiptir öllu að sá almennt orðaði texti sem stjórnarskráin byggir á sé unninn í því sem hægt er að kalla samkomulag. Ásteytingarsteinninn er sá að þingmenn Sjálfstæðisflokksins vilja ekki una því að hugmyndin um stjórnlagaþing gangi yfir rétt Alþingis, vilja ekki una því að niðurstaða stjórnlagaþings sé æðri ákvörðunum og skyldum Alþingis, að í landinu séu tvö Alþingi. Á því byggist hugmyndin um stjórnlagaþing, að ekki sé eitt Alþingi á Íslandi heldur tvö. Hvað bætist þá við? Svo kemur þriðja, fjórða, fimmta og sjötta. Hvaða hugmyndir hefur hæstv. forseti heyrt í þeim efnum? Hvað á að taka fyrir næst? Á að taka fyrir stjórnlagaþing sem fjallar um fiskveiðar við Ísland? Á að taka fyrir stjórnlagaþing sem fjallar um orkuvinnslu á Íslandi? Á að taka fyrir stjórnlagaþing sem á að fjalla um náttúru Íslands, flóru Íslands? Hvað della er þetta? Hvaða della er það sem menn sigla hér fram? Forseti Alþingis hefur fulla samúð mína með að þurfa að sitja yfir þessum darraðardansi.

Fyrir þrjósku eina og yfirlýsingar þess efnis sitja framsóknarmenn í þeirri gildru að allt snýst um það að nú ráði þeir einir ferð varðandi stjórnarskrá Íslands og eðlilega meðferð þingsins. Það hefur ekki farið á milli mála í Alþingishúsinu að fjölmargir þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingar gefa ekki mikið fyrir þessar hugmyndir um stjórnlagaþing. Þeir láta það samt yfir sig ganga og hlýða framsóknarmönnunum. Í þágu hvers? Að Framsóknarflokkurinn fái einhverja fullnægingu út úr því að geta sett eðlilegum umræðum og skoðanaskiptum við sjálfstæðismenn stólinn fyrir dyrnar? Það eina sem sjálfstæðismenn hafa gagnrýnt harkalega í þessu í raun og veru er að stjórnlagaþingið eigi að ganga lengra en Alþingi Íslendinga er ætlað að gera. Það er ekki til að auka stöðugleika, vonir og væntingar í þessa veru.

Við erum kannski að sumu leyti í sömu sporum og þegar kristni var lögtekin á Íslandi. Þá náðu menn samstöðu um að rjúfa ekki friðinn, heldur reyna að sigla með einhverjum sáttatón inn í framtíðina. Það gengur ekki með því að setja tvo skipstjóra um borð í skipið. Það gengur bara ekki. Virðulegur forseti, sem oft hefur komið með jákvæðar ábendingar í orðavali og öðru í þingsalnum, ætti að benda hv. þingmönnum á þessa rökvillu í hugsunum. Rökvilla í hugsun er alvarlegri en mismæli í orðum. Rökvilla í hugsun er jafnbrothætt og oft brothættari en orð sem oft eru það brothættasta sem til er.

Það skiptir miklu máli að menn vinni þennan framgang skynsamlega. Þegar kemur að umfjöllun um stjórnarskrána verða menn í öllum þáttum að kunna að sýna lítillæti, auðmýkt, þakklæti og virðingu. Stjórnarskrá Íslands byggir á því en það gera ekki núverandi stjórnarflokkar sem etja saman Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki og hlæja bak við tjöldin.

Alla tíð hafa verið gerðar meiri kröfur til sjálfstæðismanna en annarra þingmanna. Hvort sem það er réttlátt eða ekki hefur það verið gert, kannski vegna þess að sjálfstæðismenn hafa staðið fastar vörð um sjálfstæði og virðingu Íslands en aðrir. Það er grunntónninn í allri þeirri útgerð sem hefur átt sér stað á Íslandi til sjós og lands. Það er ekki allt þetta sem við nefnum. Það hafa komið brælur, óvæntar sem eðlilegar. Samt hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins aldrei hvikað í þessu efni, aldrei gert stjórnarskrána að uppboðsvöru eða uppboðsmarkaði. Það er enn sorglegra að hv. þingmenn Vinstri grænna skuli taka þátt í þessum darraðardansi. Í gegnum tíðina hafa alltaf verið gerðar strangar kröfur og strangari væntingar til þingmanna og stjórnmálamanna úr þeim hópi stjórnmálagerðarinnar. Þeir hafa fremur en til að mynda margir þingmenn Samfylkingarinnar varið þjóðerniskenndina sem hlýtur alltaf að spila stóra rullu í þessu máli. En nú þegja þeir þunnu hljóði eins og sofandi fiðurfé á prikum, hæstv. fjármálaráðherra. (Gripið fram í.) Það er af sem áður var þegar það þótti ekki óeðlilegt að heyrðist hljóð úr horni þegar á var hallað. (Gripið fram í: Hlustaðirðu ekki á ræðuna mína?)

Nú sitja menn í rjóma stjórnarsetunnar og vilja ekki kosningar, vilja ekki kosningabaráttu. Það er bjargföst staðreynd og sannfæring þeirra sem fara með ferð fyrir stjórnarflokkana að halda þingi hér með þvingum fram að kjördegi án þess að fólkið í landinu fái eðlilegt færi á því að hlusta á rök og skoðanaskipti allra stjórnmálaflokka landsins.

Það er ekki síður skylda ríkisstjórnar en Alþingis að tryggja að eðlileg kosningabarátta geti farið fram. Þetta er enginn dúkkulísuleikur. Þess vegna hljóta menn að verða að ná einhvers konar samkomulagi. Hv. þm. Kristrún Heimisdóttir sem hefur fylgst mjög vel með allri þessari umræðu hefur bent á ákveðna vankanta, hún hefur í rauninni lokið úttekt á málinu. Ef menn tækju eitthvert mark á þessum hv. þingmanni væri ekki þessi darraðardans í þinginu. Málið er ekkert flóknara en það. Og nú hleypur hæstv. fjármálaráðherra út því að sannleikanum verður alltaf hver sárreiðastur.

Inn kemur hv. þm. Atli Gíslason sem kom á Alþingi fyrir tveimur árum með glampa í augum, glaðbeittur, rökfastur, harðskeyttur, maður sem er þekktur fyrir réttsýni og sanngjarna meðferð. Nú þegir hann þunnu hljóði þótt um sé að ræða virðingu, heiður og stöðu stjórnarskrár Íslands, Alþingis Íslendinga, íslensku þjóðarinnar. Það er ekki nóg að snýta sér hressilega eins og hv. þingmaður gerir núna. Það minnir mig á að fyrir þó nokkrum árum var þetta í hópi Grænlendinga rætt mjög mikið, það var aðdragandi að því Grænlendingar fengu vott af réttlæti, af sjálfsstjórn og eignuðust eigin fána. Þá spurði ég góðan og gegnan grænlenskan selveiðimann hvort hann væri ekki spenntur fyrir því að fá fána fyrir Grænland. Nei, sagði hann, vasaklúturinn dugir mér. Það var heiðarlegt svar en þetta svar geta menn ekki veitt í sölum Alþingis, ekki þegar þeir tala fyrir metnað íslensku þjóðarinnar. Þá verða menn að rísa upp úr öskustónni og meðalmennskunni, úr þrætueplunum og komast að samkomulagi sem leiðir til niðurstöðu á grundvelli samkomulags eins og hægt er.

Lífið er aldrei 100%. Það fær enginn allt. Þess vegna skiptir miklu máli að það sé þokkalegt samkomulag þannig að allir hafi eitthvert land til að standa á. Það væri gaman að heyra álit hv. þingmanns og lögfræðings, Atla Gíslasonar, á því hvaða rök hann sér fyrir því að í brúnni séu tveir skipstjórar á sömu vakt. Hvaða rök eru fyrir því að þegar skip hafa lent í sjávarháska í brimgarðinum séu tveir menn við stýrið og stjórni sem skipstjórar? Fyrir því eru engin rök. Það er lítilsvirðing við íslenska þjóð og Alþingi Íslendinga, lítilsvirðing við fólkið í landinu sem hefur kosið menn til Alþingis. Þó að sumir flokkar hafi ástundað það í gegnum tíðina að velja sína gæðinga og gefa þeim meiri byr en öðrum, hvort sem þjóðin hefur viljað það eða ekki, er það ekki til eftirbreytni. Það hlýtur að vera atriði númer 1 að unnið sé á opinskáan hátt að framgangi þess sem lýtur að stjórnarskrá Íslands. Þar gildir ekki að tveir skipstjórar séu í brúnni. Það er einhver tölvuleikjahugmyndafræði sem liggur þar á bak við og passar ekki í lifandi samfélagi þar sem menn hafa bæði réttindi og skyldur.

Þetta er það sem menn greinir á um í umræðunni sem ríkisstjórnin notar sem skálkaskjól til að fara ekki í kosningabaráttu í landinu. Það væri þess vegna alveg eins hægt að kjósa á morgun og vinna þá í einhverjar vikur. (Gripið fram í.) Það væri hægt að kjósa á morgun miðað við þetta markmið og sjónarmið ríkisstjórnar Íslands.

Það er sérkennilegt að Framsóknarflokkurinn, sem er að mörgu leyti blóraböggullinn, skuli vera kominn í þá stöðu sem hann er í vegna þess að hann lýsti því yfir þegar kom að stjórnarskiptum eftir áramótin að þar sem hann hefði ekki umboð til að taka þátt í ríkisstjórn vildi hann veita Samfylkingu og Vinstri grænum vörn gegn falli. Á hverju byggist það sjónarmið Framsóknarflokksins að hann hafi ekki umboð? Á Alþingi Íslendinga sitja kjörnir þingmenn Framsóknarflokksins. Þeir hafa fullt umboð. Það má kannski segja út frá einhverjum formsatriðum að nýkjörinn formaður Framsóknarflokksins hafi ekkert umboð af því að hann hefði ekki verið valinn í kosningum en það á ekki að ganga yfir rétt kjörinna þingmanna Framsóknarflokksins til að taka þátt í öllum stjórnarathöfnum af fullri einlægni og ábyrgð. En því víkja þeir til hliðar og draga fram einhverjar tillögur og hugmyndir sem fundust í bílskúr vestur í bæ um stjórnlagaþing sem á að hnekkja allri eðlilegri þróun, reynslu og víðsýni í störfum okkar Íslendinga á leið inn í þróað nútímasamfélag. Þar erum við því miður að mörgu leyti aftarlega á merinni þó að Ísland sé í dag þrátt fyrir allt fordekraðasta land í heimi. Kannski hefur komið okkur í koll sú fordekrun sem við Íslendingar höfum búið við undanfarna áratugi. Kannski hefur það slakað á því að menn geri sér grein fyrir hvaða hlutir eru mikils virði og hvað er fánýtt.

Það er áhyggjuefni að allir Íslendingar sem eru um þrítugt og yngri hafa fengið allt, eins og maður segir, hvort sem þeir vildu það eða ekki. Ef þeir fengu það ekki í gegnum stuðning foreldra, að áeggjan bankastofnana sem tróðu þeim inn í skuldbindingar, þá vegna eigin dugnaðar því að þetta er afburðafólk sem Íslendingar geta bundið miklar vonir við. Engu að síður hafa þeir ekki þessa reynslu.

Það fer enginn sem hefur reynslu á djúpmiðin til fiskjar í hvaða veðri sem er, reynslu sem stjórnarskrá Íslands byggir á. Stjórnarskrá Íslands er ekki tyggigúmmí. Hún er heimspeki sem á að duga fyrir Íslendinga út frá eðlilegu brjóstviti, sanngirni og, síðast en ekki síst, verksviti. Það er ekki mikið verksvit í því sem fram fer á hv. Alþingi í dag. Þeir standa með spúlinn til allra átta og skúra aðallega út fyrir borðstokkinn, a.m.k. ekki á kleprana og klístrurnar á dekkinu sem eru til skammar fyrir Alþingi Íslendinga og til skammar fyrir hæstv. ríkisstjórn. Hún vill ekki leyfa fólkinu í landinu að fá eðlilega kosningabaráttu. Í ljósi blekkinga og glimmers sem oft og tíðum er dreift yfir stjórnarflokkana úr skóflum fjölmiðlanna er ekki verið að fjalla um staðreyndir, ekki verið að segja frá, ekki verið að lýsa hlutum eins og þeir eru frá almennu sjónarmiði, virðulegi forseti, heldur að selja.

Við erum að berjast við fjárglæframenn sem seldu Ísland bara eins og kók og buff. Enginn gerði athugasemdir. Allir renndu blint í sjóinn og flutu sofandi að feigðarósi — allir, ekki bara Íslendingar, heldur líka hinn vestræni heimur. Allir létu leika á sig og voru hafðir að ginningarfíflum vegna þess að menn stóðu ekki vaktina. Það er verkaskipting í öllu og menn verða að treysta öðrum. Það er ekki nokkur leið að allir menn viti allt þó að nokkrir menn á hv. Alþingi gefi sig út fyrir að vita allt, og ekki síst talsmenn sem barist hafa hatramlega fyrir því að Ísland verði nú slitið frá rótum sínum og gert að litlu illa smurðu tannhjóli í Evrópusambandinu.

Það eru mörg verk sem þarf að vinna og það er ekki hægt að líða það að valdbeita framgangi mála sem sýna stjórnarskrá Íslands og metnaði óvirðingu. Það er bara ekki hægt, það er ekki nokkur lifandi leið. Við samþykktum það ekki þegar Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, lét hleypa úr stærstu fallbyssu Breta á Ísland, maríuerluna í norðri, hvað þá þegar hann lét síðan öfl Evrópusambandsins traðka á okkur eins og kengúrur, hoppa á maríuerlunni eins og kengúrur. Við getum ekki játað því. Þá er betra að deyja standandi en að liggja undir slíku og þola það. Þá er betra að reyna að standa upp og harka af sér. Það er grundvallarskylda okkar Íslendinga að gera það og er ugglaust í hjartastað okkar allra, hugsjón okkar. Það hljótum við að eiga sameiginlegt þó að menn túlki mikilvægi þessarar hugsjónar á mismunandi hátt og stundum er eins og um sé að ræða tombólu eða útsölu.

Þó að menn geri þau mistök hafa alla jafna alltaf verið nógu margir til að stöðva slíkt og segja: Hingað og ekki lengra. Þess vegna gengur það ekki á Alþingi Íslendinga að færa verkefni, hlutverk Alþingis, grundvallarhlutverk sem íslenska þjóðin kýs menn til, til stjórnlagaþings. Hvaða stigsmunur er á kosningu á stjórnlagaþing eða Alþingi í þjóðaratkvæðagreiðslu, herra forseti? Það er enginn munur. Það er búið að vinna þetta verk. Auðvitað er þetta eðlilegt fólk og það veit maður af langri reynslu og setu á Alþingi að þorri þingmanna er sammála því að eðlilegast sé að kalla til færustu lögspekinga þjóðarinnar, hugsjónamenn, menn sem brotið hafa mál til mergjar, krufið það sem kryfja þarf ofan í kjölinn og komist að niðurstöðu um hluti, orðalag og framsetningu sem eru heillavænleg fyrir íslenskt samfélag. Það eru einfaldlega hlutir sem stóð til að gera í fyrrahaust, stofna til verkhóps færustu lögspekinga, stjórnspekinga, kunnáttumanna, manna með reynslu og verksvit. Rætt var um 10–12 manna hóp til að snyrta og lagfæra það sem menn kæmust að samkomulagi um varðandi breytingar á stjórnarskrá.

Það gerir enginn grundvallarbreytingar á stjórnarskrá Íslands en því miður hefur dregist úr hömlu að laga þar til, gera skarpari skil á orðalagi, til að mynda varðandi auðlindir okkar og rétt þjóðarinnar til að ráða einir ferðinni í þeim efnum, ráða einir ferð út frá íslenskum sjónarmiðum á íslenskum forsendum. Það er það sem okkur varðar um. Síðan getum við hugsað um að vera þokkalega viðkunnanleg, kurteis og skemmtileg í garð nágranna okkar en ekki með því að fórna íslenskum hagsmunum, íslenskri hefð. Þá getum við alveg eins flutt á Fjón eða Sjanghæ, hvert sem er í hinar ýmsu sjoppur heimsins. Þá tjöldum við ekki íslenska fánanum eins og er í bakgrunni hæstv. forseta, þá getum við tekið hann niður og tekið vasaklútinn upp aftur, tekið snýtuklútinn upp og látið duga. Þá erum við ekki þjóð. Þá erum við einstakir sérvitringar. (Forseti hringir.) Hæstv. forseti. Nú gellur bjallan en ég á enn 9 sekúndur eftir.

Virðulegi forseti. Við skulum hætta að selja Ísland með því að (Forseti hringir.) subba út á stjórnarskrána. Við skulum segja hlutina eins og þeir eru.