136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:22]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Johnsen hlý orð í minn garð sem ég hlustaði á með athygli og vil vekja athygli hans á því að ég flutti ræðu um málið þar sem ég fjallaði um efnishliðar þess. Ég spyr hv. þingmann: Hver er afstaða hans efnislega til 1. gr. um að náttúruauðlindir Íslands verði þjóðareign, að þær megi ekki framselja varanlega? Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé á móti 2. gr., að bera breytingu á stjórnarskrá undir þjóðaratkvæði í stað þess að hafa þingkosningar sem ég hygg að sé afar gagnleg breyting og ég heyri ekki betur en sjálfstæðismenn taki undir það. Í þriðja lagi spyr ég hv. þingmann hvort hann sé efnislega ósammála því að mikilvæg mál séu borin undir þjóðina, 30 þúsund manns eins og gert er ráð fyrir um það bil, til þjóðaratkvæðagreiðslu ef safnast slíkar undirskriftir.

Í fjórða lagi vík ég að stjórnlagaþinginu. Þar er andstaða. Þar er að vísu lagt upp með tvo skipstjóra. Sjálfstæðisflokkurinn vill halda stjórnarskrárvaldinu innan þingsins en samþykkja ráðgjafarþing, annað skip, tvö skip, þarf þar tvo skipstjóra. Á því hef ég séð lausn og hef bent á það. Ég held að hægt sé að málamiðla í þessu dæmi. Ég held að það sé hægt að finna lausnir á þessu öllu vegna þess að efnislega ber ekki svo mikið á milli, hv. þm. Árni Johnsen. (ÁJ: Hvað er það?) Það er hægt að hugsa sér ýmsar leiðir í því, að þingið verði jafnsett, þau komi fram saman og eitt og annað, að menn opni augun og setjist niður, skynsamt fólk, og finni lausnir. Við tölum í lausnum. Eins og hv. þm. Ellert B. Schram hefur bent á ber ekki svo mikið á milli okkar efnislega. Ég skil gagnrýni á form, undirbúning og fleira en efnisleg niðurstaða, sérstaklega hvað varðar 1., 2. og 3. gr., liggur á borðinu. Það er ekki ósætti um hana. Það er afar mikilvægt ef koma fram breytingar á stjórnarskránni að hægt sé að leggja það undir þjóðaratkvæðagreiðslu en tengja það ekki inn í alþingiskosningar.