136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:08]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnarskrárn. s. (Björn Bjarnason) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég er undrandi á því að forseti geti ekki tekið af skarið með þetta. Það var mjög óþægilegt þegar umræða var hér síðdegis á föstudaginn og forseti úrskurðaði þá þótt flutningsmenn þessarar tillögu um breytingu á stjórnarskránni væru ekki hér og væru að búa sig undir sjónvarpsþátt að umræðu skyldi haldið áfram. Og við sættum okkur í sjálfu sér við það. En það hefði engum dottið í hug á þeirri stundu að það væri einhver vafi um að fundir yrðu haldnir hér í þinginu um leið og þessi þáttur hefði hafist. Það var ekki svo og á ekki að vera svo. Ég óska eftir því að hæstv. forseti úrskurði strax þannig að þingmenn átti sig á því hvernig unnt er að standa að þessu máli.