136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það eru í rauninni bara tvö atriði sem ég ætla að fylgja eftir af því sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir nefndi í andsvari sínu, annars vegar varðandi stjórnlagaþingið og hins vegar varðandi kostnaðinn. Að sjálfsögðu er það fagnaðarefni ef meiri hlutinn hefur áttað sig á því að sá kostnaður sem gert var ráð fyrir í upphafi er allt of mikill. Þegar við sjálfstæðismenn vöktum athygli á þessu í þinginu var okkur reyndar svarað með því að lýðræðið kostaði sitt. Hæstv. forsætisráðherra orðaði það þannig að hún teldi það ekki vandamál þótt það kostaði þessar upphæðir en ef meiri hlutinn hefur breytt um afstöðu í þessu máli er það fagnaðarefni.

Það væri reyndar gott ef hæstv. forsætisráðherra mundi tjá sig um hvort hún sé sátt við þær breytingartillögur sem fram hafa komið. Það hefur ekki komið fram af hálfu flutningsmanna málsins, hæstv. forsætisráðherra, hæstv. fjármálaráðherra, hv. þm. Birkis J. Jónssonar eða Guðjóns A. Kristjánssonar hvort þau eru samþykk þeim tillögum sem komu frá meiri hlutanum. Þögn er sama og samþykki þannig að þögn þeirra verður kannski að skoðast í því ljósi.

Varðandi kostnaðarþáttinn er þetta fínt, við getum verið sammála um að það er gott ef hægt er að ná þessu fram með ódýrari hætti en upphaflega var ráðgert.

Ég vil hins vegar taka fram að það skortir algerlega efnislegan rökstuðning á efnisinnihaldið fyrir því hvernig þeir sem héldu að það þyrfti þing þar sem menn væru í fullu starfi í eitt og hálft til tvö ár til að endurskoða stjórnarskrána, hafa allt í einu uppgötvað að það þarf ekki nema eitt ár og menn geta verið í hlutastarfi og þingið þarf bara að koma saman af og til nokkrum sinnum yfir starfstímann, það nægir. Þá fer ég að velta fyrir mér: (Forseti hringir.) Hafa hugmyndir um stjórnlagaþing með einhverjum hætti gerbreyst (Forseti hringir.) meðan málið hefur verið til meðferðar á þingi? Er það þá ekki, (Forseti hringir.) hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, til vitnis um að málið var vanreifað og vanþroskað (Forseti hringir.) þegar komið var með það inn í þingið?