136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:38]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnarskrárn. s. (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er sögulegur dagur hér að taka þátt í þessum umræðum miðað við aðdragandann þegar dagskrártillaga okkar sjálfstæðismanna, um það að taka önnur mál fyrir, var felld. Mun það vera í fyrsta sinn í sögu þingsins að slík tillaga er borin upp og er að mínu mati aðeins til marks um það að forsetaembættið hefur sett niður. Forsetaembættið er ekki lengur þannig skipað að hæstv. forseti Alþingis geti ráðið málum fram í sátt og það verða að fara fram atkvæðagreiðslur um það hvernig dagskrá þingsins er háttað. Þetta hafa menn forðast í áratugi og reynt að komast hjá því vegna þess hvaða fordæmi felst í því. Og þetta hefur gerst hér nú.

Það er greinilegt að það er eindreginn vilji stjórnarmeirihlutans hér á þingi að halda þinginu undir þessu oki dagskrárvaldsins sem birtist í því að þessi tillaga þurfti að koma hér fram og hún var borin undir atkvæði í stað þess að leita sátta og komast að samkomulagi um dagskrána.

Hvernig halda menn að hægt sé að ná samkomulagi við menn um stjórnarskrána sem geta ekki einu sinni samið um dagskrá Alþingis? Hvernig halda menn að hægt sé að ná samkomulagi um efnisatriði í stjórnarskránni þegar þannig er haldið á stjórn þingsins að ekki er hægt að ná samkomulagi um dagskrána? Það er sögulegt að fylgjast með þessu og sjá hvernig meiri hluti þingsins ryðst hér fram og hvernig hann heldur á þessu máli. Það var enn ein niðurlæging fyrir Alþingi að þessi atkvæðagreiðsla þurfti að fara hér fram í dag.

Þessir menn koma síðan hér upp hver eftir annan eftir það og velta því fyrir sér hvort hægt sé að ná samkomulagi um stjórnarskrána þegar ekki er einu sinni hægt að ná samkomulagi um dagskrá þingsins. Hvernig halda þeir menn sem halda svona á málum að hægt sé að semja við þá um stjórnarskrána?

Öll framganga þessa máls hefur því miður verið með eindæmum. Enda segjum við hér í upphafi nefndarálits okkar, sérnefndarinnar, minnihlutinn, að það er málsmeðferðin sem er ámælisverðust. Það er það þegar hv. formaður nefndarinnar, sem nú hefur farið af þingi og var greinilega í mikilli tímaþröng, það var augljóst. Sagt var við okkur nefndarmenn: Tími sátta er liðinn — og þá var greinilega óeðlileg tímaþröng í málinu. Þannig að bæði efnislega og varðandi tímann og líka varðandi dagskrána þá er haldið þannig á málum að það er greinilega enginn vilji til sátta. Við sögðum á síðasta fundi nefndarinnar: Við erum tilbúin til þess að ræða málið í nefndinni. Það mun spara tíma í þingsalnum ef leitað er sátta í nefndinni. Þá var okkur sagt: Tími sátta er liðinn.

Þegar við komum hér í þingsalinn og leitum sátta um dagskrá þingsins þá er haldið þannig á málum að það verður að fara í atkvæðagreiðslu. Það er ekki neinn vilji til sátta. Það verður að bera það undir atkvæði þingsins. Brotið blað í þingsögunni vegna þess að menn vilja halda þannig á málinu. Þetta er ekki okkar vilji. Við höfum lagt okkur fram um það að ná sáttum um þessi mál. Þeim tilraunum hefur öllum verið hafnað og virðist vera enn í dag þó að hv. þingmenn komi hingað upp og láti eins og þeir vilji sættast um eitthvað sem við vitum ekki hvað er.

Varðandi málsmeðferðina þá þykir mér einnig að í umræðunum í dag hafi komið fram, hjá hv. þm. Guðfinnu S. Bjarnadóttur, mjög vel rökstudd gagnrýni á það hvernig að þessum málum hefur verið staðið. Hún fór yfir það í ræðu sinni lið fyrir lið hvernig standa hefði átt að málinu til þess að ná samkomulagi um það og vinna það á þann veg að það kæmi fullmótað og fullbúið hingað í þingsalinn. Svo er ekki og þess vegna erum við í þessum vandræðum vegna þess hve illa hefur verið staðið að þessum undirbúningi öllum.

Síðan gerist það í andsvari við ræðu hv. þingmanns að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir stendur hér upp og fer að tala um að haft hafi verið samráð við sveitarstjórnarmenn um að halda kjör til stjórnlagaþings á sama tíma og sveitarstjórnarkosningar Þetta er alrangt. Það var nefnt í þingnefndinni við þá gesti Sambands íslenskra sveitarfélaga sem voru alfarið á móti stjórnlagaþinginu, „því að það mætti kannski kjósa til þingsins í tengslum við sveitarstjórnarkosningarnar“. Ef svona aukasetningar eru taldar til marks um samráð við breytingar á stjórnarskránni þá endurspeglar það allt ferlið sem hefur verið í undirbúningi þessa máls.

Ég tek undir það með hv. þm. Sturlu Böðvarssyni að það væri mjög gagnlegt og fróðlegt að fá hæstv. dómsmálaráðherra til þátttöku í þessum umræðum. Hún hefur flutt erindi og hún tók þátt í að smíða handbók um gerð lagafrumvarpa. Hún hefur flutt erindi, bæði opinbera fyrirlestra og einnig á námsstefnum, um undirbúning lagasmíðar og hvers þarf að gæta við lagasmíð.

Ég las hér síðast þegar ég flutti ræðu í þessum umræðum ritgerð eða forustugrein úr tímariti lögfræðinga eftir starfandi umboðsmann Alþingis, Róbert S. Spanó, þar sem hann varar eindregið við vinnubrögðum eins og einkenna þá lagasmíð eða stjórnlagasmíð sem við stöndum nú frammi fyrir.

Ég er viss um að það væri mjög gagnlegt fyrir hæstv. dómsmálaráðherra að hlýða á þessar umræður og gagnlegt fyrir þingmenn ef hæstv. dómsmálaráðherra kæmi hér og gerði grein fyrir því hvaða augum hún lítur aðdraganda og undirbúning lagagerðar og hvernig þetta fellur að því. Má raunar segja að vegna þess hraða sem var í sérnefndinni hafi okkur ekki gefist tími til að gera það sem hefði verið eðlilegt, þ.e. að kalla hæstv. dómsmálaráðherra fyrir nefndina sem sérfræðing í lagasmíð til þess að átta sig á þeim sjónarmiðum sem hún hefði til þess hvernig að þessu máli hefur verið staðið.

Það er sama hvar við drepum niður Þetta er illa undirbúið. Það er kastað til þess höndunum. Ég spyr síðan, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson rakti hér: Hvernig á að kjósa til stjórnlagaþingsins? Ætla mætti — þegar maður heyrir lýsingarnar og fer yfir nefndarfundina í huganum, hvernig þetta ágæta meirihlutafólk í nefndinni lítur á málið — að farið hafi verið í smiðju til hv. frambjóðanda Ástþórs Magnússonar. Ég heyrði ekki betur en að hann kynnti í umræðuþætti frambjóðenda eða forustumanna framboða í sjónvarpinu á föstudagskvöldið leið til þess að vera í stöðugu sambandi við almenning í einhverju rafrænu þingi. Það er kannski eitthvað slíkt sem menn eru með í huga þegar þeir segja í nefndaráliti sínu að þjóðin öll eigi að sitja á stjórnlagaþinginu. Það eru kannski tillögur Ástþórs Magnússonar — hann er kannski kominn inn í þetta frumvarp líka hér á nefndaráliti til þess að breikka stuðningshópinn miðað við það að þjóðin öll eigi að sitja á stjórnlagaþinginu. Það skyldi þó aldrei vera.

Varðandi 3. gr. frumvarpsins, sem menn tala hér um, sem er efnisbreyting eins og 1. gr. — þess vegna segjum við 1. og 3. gr. eigum við að ýta til hliðar og einbeita okkur að 2. gr. Varðandi 3. gr. frumvarpsins þá gætum við sem viljum breytingar á 26. gr. stjórnarskrárinnar, um synjunarvald forseta Íslands á lögum frá Alþingi, í sjálfu sér hugsað um 3. gr. ef tekið yrði fram í tengslum við hana að þetta synjunarvald hyrfi. Því það kom fram hjá umsagnaraðilum, þegar um var spurt í nefndinni — spurt var: Ber að líta þannig á að ef 3. gr. yrði fest í stjórnarskrá yrði synjunarvaldið í 26. gr. raunverulega marklaust? Þeir sem svöruðu voru annaðhvort á báðum áttum eða þeir svöruðu afdráttarlaust og töldu að með þessu yrði 26. gr. marklaus í þeim skilningi að þar væri ekki lengur fyrir hendi nein ástæða til að hafa það ákvæði í stjórnarskránni og þar með mundi synjunarvald forseta Íslands hverfa úr sögunni.

Það eru svona athuganir sem þurfa að fara fram. Það eru slíkar athuganir sem þurfa að liggja klárar fyrir þegar menn eru að fara út í breytingar af þessu tagi. Það verður að skrifa það og vinna að þeirri niðurstöðu að það sé alveg ljóst hvað menn eru að segja um þessa hluti. Ég tel að þetta séu efnisatriði sem er þá eðlilegt að bíði þar til menn hafa tekið ákvarðanir um það hvaða aðferðum á að beita við breytingu á stjórnarskránni eins og mælt er fyrir í 2. gr. frumvarpsins varðandi breytinguna á 79. gr.

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé svo að efnisatriði frumvarpsins — ég hafna algerlega stjórnlagaþinginu, 1. og 2. gr. eru þess eðlis að ef menn segja að samkomulag sé um 1. gr. hvers vegna tóku menn þá ekki inn frumvarpið frá 2007? Þeir hafa líklega verið ósammála því sem kom þar fram fyrst það er ekki tekið upp orðrétt inn í þetta frumvarp. Þannig að þar eru líka álitamál sem þarf að ræða. Ég ítreka þá tillögu mína sem ég hef verið með hér frá upphafi: Ef tími sátta er ekki liðinn, eins og okkur var sagt í nefndinni, þá á að skoða 2. gr. frumvarpsins.