136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:33]
Horfa

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál er jafnmikilvægt og hvert annað. Hér er verið að fjalla um grundvallarlöggjöfina og við erum að tala um lýðræðið í landinu og hvernig almenningur geti tekið þátt í ákvörðun sem öll þjóðin ber fyrir brjósti.

Hv. þingmaður kvartar undan því að ekki séu nógu margir í þingsal. Ég verð ekki var við að hér sé fjölmenni af hálfu Sjálfstæðisflokksins, í augnablikinu að minnsta kosti. Ég vek athygli á því að þetta mál er uppi á borði þingmanna vegna nefndarálits og tillagna sem hafa komið fram frá sérnefnd um þetta mál svo að við fulltrúar nefndarinnar höfum setið og hlýtt á alla umræðuna. Við höfum ljáð því eyra sem andstæðingar þessa frumvarps hafa til málanna að leggja og skrifað það hjá okkur. Sumt er rökrétt, annað ekki og okkur greinir á um ýmis mál. En ég er einlægt þeirrar skoðunar að það sé tímasóun að halda miklu fleiri ræður og eyða fleiri sólarhringum í þessa umræðu í þingsal vegna þess að sjónarmiðin eru komin fram. Sérstök nefnd hefur verið skipuð til þess að fara yfir þetta mál og að minnsta kosti erum við í meiri hluta þeirrar nefndar fullkomlega tilbúnir til þess að fjalla um málið á ný með vísan til þeirra rökræðna og þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram.

Ég held að það væri heillavænlegast fyrir Alþingi og fyrir flokkana og fyrir þjóðina að við látum nú þessari umræðu linna að sinni.