136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:44]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er athyglisverð spurning frá hv. þingmanni. Það var slæmt að hann heyrði ekki ræðu mína alla en við getum mælt okkur mót hér í þingsalnum og ég get flutt hana fyrir hann aftur ef hann vill.

Varðandi spurningu hans er kannski of mikið sagt að ekki megi svipta Alþingi stjórnlagavaldinu en ég tel hins vegar að það eigi ekki að gera það, m.a. vegna þess að talað hefur verið um að Alþingi hafi verið að veikjast á undanförnum árum. Þó að ég sé ekki endilega sammála því tel ég að það væri síst til þess fallið að lyfta ímynd þingsins eða ýta undir stöðu þess ef það væri gert.

Varðandi það sem hv. þingmaður spurði um, hvort það væri eðlismunur á þjóðkjörnum fulltrúum á löggjafarþingi og fulltrúum á sérstöku stjórnlagaþingi. Það er kannski of mikið sagt að það sé eðlismunur en það er munur þar á, því að stjórnlagaþingið hefur afmarkað hlutverk til að vinna á afmörkuðum tíma og er kosið til þess eina verks á meðan löggjafarþingið, sem fer líka með stjórnlagavaldið, er kosið til að sjá um fleiri hluti og yfir lengri tíma. Og miðað við hefðina er hún sú að þeir sem þar sitja bjóða sig fram til endurkjörs og þurfa í gegnum það að sæta ákveðinni ábyrgð á verkum sínum en þeir sem eru í framboði til stjórnlagaþings hafa væntanlega ekki möguleika til þess að verða endurkjörnir til stjórnlagaþings því að ólíklegt er að haldin verði tvö stjórnlagaþing með stuttu millibili.