136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:05]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Við upplifum hér mikið málþóf og sérkennilegt ástand í þinginu. Það eru ekki nema átján dagar til kosninga og við þingmenn höfum ekki haft tækifæri til þess að fara út um kjördæmi okkar til þess að kynna það sem við erum að bjóða upp á og hvað við viljum gera eftir kosningar og ekki náð að komast í návígi við kjósendur okkar.

Ég hefði lagt til að þingforseti kannaði möguleika á því hvort ekki væri hægt hreinlega að fresta kosningum um einn mánuð til þess að gefa mönnum tækifæri til að tala um þau mál sem þeir vilja og allur sá fjöldi manna sem stendur fyrir málþófi hafi og fái tíma til að tala sig út um þessi mál og leiti möguleika á því að fresta kosningum um einn mánuð.