136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég tel að það færi vel á því að hæstv. forseti settist niður með þingflokksformönnum og ræddi um þetta mál, þá tillögu sem hér hefur komið fram.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur boðað að hann muni leggja fram dagskrártillögu um málið. Hugsanlega er hægt að leysa málið án þess að til atkvæðagreiðslu komi. En það er auðvitað undir því komið að hæstv. forseti hafi forgöngu um að leysa málið.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi málsins. Það hefur verið nefnt hér í umræðunni. En það er með ólíkindum að ríkisstjórnin og þeir flokkar sem henni fylgja að málum hér í þinginu skuli ætla að keyra þetta stjórnarskrármál í gegn og ýta öllum öðrum málum út af borðinu á meðan. Brýnum málum fyrir hagsmuni heimilanna eins og í þessu tilviki og öðrum málum sem snúa að hagsmunum fyrirtækjanna. Það er alveg með (Forseti hringir.) ólíkindum sá ofsi og sú óbilgirni sem ræður ferðinni hjá ríkisstjórnarforustunni og fylgismönnum hennar hér á hv. þingi.