136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:31]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það liggur alveg fyrir að það er mikill áherslumunur hjá Sjálfstæðisflokknum annars vegar og minnihlutaríkisstjórninni hins vegar um það hvaða mál beri að setja í forgang á Alþingi.

Það liggur einnig fyrir að það er mikill ágreiningur í samfélaginu öllu vegna þeirra breytinga sem fyrirhugaðar eru og liggja fyrir í frumvarpi um stjórnarskrá Íslands, um stjórnarskrá okkar. Það er ljóst að við sjálfstæðismenn ætlum að beita okkur fyrir því að því máli muni ekki ljúka með þeim hætti og í þeim mikla ágreiningi sem er um málið. (Gripið fram í: Ertu að hóta?) Það er engin hótun í því, hv. þingmaður. Það er bara staðreynd málsins. Við ætlum að standa vörð um þjóð og stjórnarskrá í þessu landi.

En við viljum taka á dagskrá þau mál sem skipta máli fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu og við viljum keyra þau í gegn með ykkur. Þó að við þyrftum að vinna alla dymbilvikuna (Forseti hringir.) með ykkur erum við tilbúin til þess og við biðjum ykkur að koma í þá vegferð með okkur (Forseti hringir.) og ljúka þeim málum sem minnihlutaríkisstjórnin hefur ítrekað lofað fólkinu í þessu landi. (Forseti hringir.) Hitt liggur fyrir að við munum halda áfram að verja stjórnarskrána og beita okkur fyrir því að málið verði ekki afgreitt með þeim breytingum sem svo djúpur ágreiningur er um.