136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:05]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnarskrárn. s. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég segi í framhaldi af þessum umræðum að það þarf náttúrlega að kanna hvort forseti Íslands mundi staðfesta frumvarp sem yrði lagt fyrir hann á þann veg sem hér hefur verið túlkað að hann mundi tapa rétti sínum skv. 26. gr. stjórnarskrárinnar ef það yrði að lögum. Þetta kann að vekja ýmsar spurningar.

Eins og hv. þingmaður vakti máls á flutti hann, ef ég skildi rétt, þrjár breytingartillögur við þetta frumvarp. Hv. þingmaður situr í forsætisnefnd Alþingis og hún hefur ákveðnum skyldum að gegna varðandi gæði lagafrumvarpa. Árið 2007 var gerð breyting á 36 gr. þingskapalaga og sett inn heimild handa forseta Alþingis til að setja leiðbeiningarreglur um frágang lagafrumvarpa. Sú heimild hefur verið túlkuð á þann veg að hún gefi vísbendingu um að þingið hyggist gegna frekara forustuhlutverki við undirbúning nýrrar löggjafar. Þetta hefur m.a. verið túlkað á þennan veg af núverandi hæstv. dómsmálaráðherra sem hefur fjallað mjög um gæði löggjafar. Þegar við stöndum á þessum tímapunkti núna og hv. þingmaður hefur flutt þrjár breytingartillögur við frumvarp til laga um breytingu á stjórnarskránni spyr ég hvort honum finnist ekki sem forsætisnefndarmanni í þinginu ástæða til að hugað sé að því hvernig að þessu máli er staðið í forsætisnefnd og að farið verði yfir þær heimildir sem hún hefur, og skyldur því að heimildunum fylgja líka skyldur og ábyrgð, og þetta mál tekið til athugunar í ljósi þess sem hv. þingmaður sagði, að hann teldi að í þessu frumvarpi óbreyttu fælist að Alþingi væri sett í annað sæti og þannig búið um hnútana að á stjórnlagaþingi kynni kannski að vera ákveðið að Alþingi hyrfi úr sögunni, ef mætti túlka orð hans á þann veg. Ég (Forseti hringir.) hvet hv. þingmann til að svara (Forseti hringir.) því hvort hann hyggist ekki taka þetta upp í forsætisnefnd þingsins.