136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

úrskurður forseta um dagskrártillögu.

[13:41]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil enn á ný ítreka þá beiðni okkar sjálfstæðismanna að við gerum nú hlé á umræðu um stjórnarskrána og snúum okkur að umræðu um þau mál sem skipta verulegu máli fyrir íslenskt efnahagslíf. Um mál eins og t.d. Helguvík er góð sátt hér í þingsölum, ekki full, ég geri mér grein fyrir því, talsmenn Vinstri grænna hafa lýst sínum efasemdum, en ég er þess fullviss að hér í þingsalnum er mikill meiri hluti fyrir því máli. Atvinnuleysi fer vaxandi og vandi heimilanna eykst með hverjum deginum sem líður. Það er ábyrgðarleysi af hálfu virðulegs forseta og minnihlutastjórnarinnar að taka ekki í útrétta hönd Sjálfstæðisflokksins, sem býður að þetta mál, um stjórnarskrá lýðveldisins, verði sett til hliðar, að við afgreiðum þau mikilvægu mál sem bíða og höldum svo áfram umræðu um stjórnarskrána. (Forseti hringir.) Það er tilboð Sjálfstæðisflokksins og er furðulegt og óskiljanlegt að minnihlutastjórnin (Forseti hringir.) og virðulegur forseti Alþingis geti ekki orðið við þeirri sáttagjörð sem við (Forseti hringir.) sjálfstæðismenn flytjum.