136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

úrskurður forseta um dagskrártillögu.

[13:42]
Horfa

Björn Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins koma hér upp til þess að árétta það að ég tel að mál séu hér komin í óefni í þingsalnum vegna þess að hæstv. forseti lætur sig það engu skipta að við óskum eftir sátt í málinu. Hann hleypur frá því mikilvæga hlutverki sínu að leita sátta um mál í stað þess að stefna þeim í það óefni sem hann sjálfur hefur lýst.

Hæstv. forseti verður að líta til þess að málið leysist ekki með þeim hætti að fresta því fram til lykta fundar að bera upp slíkar tillögur. Þær tillögur verða bornar fram og málið verður í þeim hnút sem það er þar til virðulegur forseti beitir sér fyrir sátt um dagskrána. Ef forseti skilur ekki eftir þær umræður sem hér hafa farið fram að við óskum eftir því að önnur mál verði tekin á dagskrá en stjórnarskrármálið, veit ég ekki hvað þarf að gera að af hálfu okkar þingmanna Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) til þess að virðulegur forseti átti sig á því.